Fréttir | 16. nóvember 2021 - kl. 11:48
Hallarekstur á verkefni um málefni fatlaðs fólks verulegt áhyggjuefni
Fréttin hefur verið uppfærð

Húnaþing vestra ræður ekki við þáttöku í verkefni um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra undir óbreyttum formerkjum. Kostnaður sveitarfélagsins vegna málaflokksins hefur hækkað um 509% frá árinu 2016. Hækkun milli áranna 2021 og 2021 nemur 181%. Þetta kemur fram í bókun sveitarstjórnarfundar Húnaþings vestra í síðustu viku. Þar segir að hinn gríðarlegi hallarekstur vegna málaflokksins sé verulegt áhyggjuefni.

Í bókuninni kemur fram að hlutfall þess sem greitt er til Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem er leiðandi sveitarfélag í málaflokknum, er 0,25% af útsvari Húnaþings vestra. Auk þess greiðir Húnaþing vestra hluta af hallarekstri málaflokksins eftir íbúafjölda. Sú fjárhæð hafi hækkað um 509% frá árinu 2016 og hækkunin frá því í fyrra nemur 181%, eins og áður sagði.

„Ljóst má vera að Húnaþing vestra ræður ekki við þátttöku í verkefninu undir óbreyttum formerkjum, en málaflokkurinn er á ábyrgð ríkisins,“ segir í bókuninni.

Oddvita og sveitarstjóra var falið að ræða við félags- og barnamálaráðherra og gera honum grein fyrir stöðunni.

Fréttin hefur verið uppfærð en áður var sagt að hallarekstur væri á byggðasamlagi um málefni fatlaðs fólks, sem er ekki rétt.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga