Nýi skálinn. Mynd: hunavatnshreppur.is
Nýi skálinn. Mynd: hunavatnshreppur.is
Fréttir | 18. nóvember 2021 - kl. 17:00
Kjósa á um nafn á nýja gangnamannaskálann

Sveitarstjórn Húnavatnshrepps vill að stjórn fjallskiladeildar Grímstungu- og Haukagilsheiða láti kjósa um nafn á nýja gangnamannaskálann á Grímstunguheiði á næsta almenna fundi deildarinnar. Kjósa á um nöfnin Brík, Gedduskáli, Heiðahöllin, Skjól og Vegamót. Stjórn fjallskiladeildarinnar efndi til nafnasamkeppni fyrr á þessu ári og þurfti að skila inn tillögu að nafni fyrir 16. ágúst. Alls bárust 26 tillögur að nafni.

Nöfnin eru: Álver, Brík, Byrgi, Byrgið, Egilsbúð, Heiðahöllin, Heiðarból, Húnverska Heiðahölli, Höfðaborg, Höfðaborgin, Ingunnarstaðir, Jónshús, Magnhús, Móða, Óravegur, Réttarhóll, Sigurhæðir, Skálmöld, Skjól, Stórhöfði, Undirheimar, Undraland, Vegamót, Veröld, Vinaminni og Ölver.

Á fundi stjórnar fjallskiladeildarinnar 9. nóvember var samþykkti með tveimur atkvæðum nafnið Vegamót. Ákvörðuninni var vísað til samþykkis sveitarstjórnar Húnavatnshrepps. Hún fundaði um málið í gær og frestaði ákvörðun um nýtt nafn en fól stjórn deildarinnar að láta kjósa á milli nafnanna fimm.

Nýi gangnamannaskálinn er hinn glæsilegasti, er rétt um 500 fermetrar að stærð, samansettur úr tíu skálaeiningum með 29 gistiherbergjum, salernum, sturtum, matsal og eldhúsaðstöðu. Einnig var reist nýtt hesthús sem er um 120 fermetrar að stærð. Gistipláss í skálanum er fyrir 60 manns og hesthúsið er fyrir um 70 hross.

Húnavatnshreppur, ásamt bændum innan fjallskiladeildar Grímstungu- og Haukagilsheiða, reistu skálann og kemur hann í stað Öldumóðuskála og Álkuskála.

Tengdar fréttir:
Nýr og glæsilegur gangnamannaskáli á Grímstunguheiði
Nafnasamkeppni á nýjan gangnamannaskála við Gedduhöfða á Grímstunguheiði
Reisa á gangnamannaskála við Gedduhöfða

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga