Fréttir | 05. desember 2021 - kl. 22:02
Stefnir í mikinn halla á rekstri málefna fatlaðra

Sveitarfélagið Skagaströnd, Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur og Blönduósbær hafa öll lýst yfir þungum áhyggjum að sífellt auknum kostnaði vegna rekstur málefna fatlaðra á Norðurlandi vestra. Öll sveitarfélögin í landshlutanum starfa saman að málaflokknum og leiðir Sveitarfélagið Skagafjörður samstarfið. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, sagði í viðtali við Ríkisútvarpið á föstudaginn að það stefni í mikill halla í rekstrinum á þessu ári.

„Fyrir utan það útsvarshlutfall sem fylgir málaflokknum, sem eru sem sagt tekjur ríkisins inn í málaflokkinn og þá hlutfall frá Jöfnunarsjóði, stefnir í að viðbótarframlag sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra á árinu 2021 verði talsvert á þriðja hundrað milljónir. Sem er þá hallinn sem þau þurfa að bera,“ sagði Sigfús Ingi.

Þetta sé mun meiri halli en árin á undan og ein helsta skýringin sé sú að notendum þjónustunnar á landsvísu hafi fjölgað mikið milli ára. Auk þess minnki það framlag sem hvert og eitt sveitarfélag fær úr Jöfnunarsjóði.

Sigfús Ingi sagði að sveitarfélög á öllu landinu glíma við sama vanda og á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í haust hafi komið skýrt fram að það skorti framlög frá ríkinu í málaflokkinn. Nú sé þó í gangi úttekt á vegum félagsmálaráðuneytisins á öllum þessum rekstri og niðurstöðu þeirrar vinnu sé að vænta upp úr áramótum.

Sjá nánari  umfjöllun á vef Ríkisútvarpsins.

Tengdar fréttir:

Þungar áhyggjur af þróun kostnaðar

Geta ekki tekið þátt í verkefni um málefni fatlaðra að óbreyttu

Hallarekstur á verkefni um málefni fatlaðs fólks verulegt áhyggjuefni

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga