Fréttir | 07. desember 2021 - kl. 15:05
Kaupmennirnir á Skagaströnd frá 1586

Út er komin bókin Kaupmennirnir á Skagaströnd frá 1586 eftir Lárus Ægi Guðmundsson. Í bókinni er rakin saga kaupmennsku á Skagaströnd frá árinu 1586 en þá var gefið út verslunarleyfi handa Ratke Timmermann frá Hamborg. Alla tíð síðan hefur verið verslun á Skagaströnd og um langan aldur var þar eini verslunarstaðurinn í Húnavatnssýslu.

Bókin greinir frá kaupmönnum og verslunarfólki sem lengi starfaði á Skagaströnd í umboði Danakonungs. Síðar voru stofnaðar fjölmargar stórar og smáar verslanir, flestar um og eftir miðja 20. öld og koma þar margir einstaklingar við sögu. Einnig er að finna ágrip af sögu verslunarfélaga og kaupfélaga.

Ýmislegt fleira fróðlegt er í bókinni svo sem siglingar, skipsströnd, samskipti kaupmanna og bænda fyrr á öldum og fjöldi áhugaverðra teikninga, málverka og ljósmynda frá fyrri tíð.

Útgáfa bókarinnar var styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra. Bókin kostar 5.000 krónur og hægt er að panta hana á netfanginu lalligud@simnet.is.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga