Mynd: hunvetningur.is
Mynd: hunvetningur.is
Fréttir | 06. janúar 2022 - kl. 14:09
Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hafin

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna kosningar um sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar er hafin hjá sýslumönnum um land allt og hjá sendiráðum erlendis, að því er fram kemur á vefnum Húnvetningur.is. Íbúar sveitarfélaganna sem eiga kosningarétt í kosningunum og eiga þess ekki kost að mæta á kjörstað, geta því greitt atkvæði sitt hjá sýslumönnum og í sendiráðum á opnunartíma fram að kjördegi þann 19. febrúar næstkomandi.

Kynningarstarf mun hefjast formlega átta vikum fyrir kjördag í samræmi við sveitarstjórnarlög, en kynningarefni mun berast íbúum í janúar og haldnir verða íbúafundir í aðdraganda kosninganna.

Sjá nánar á Húnvetningur.is.

Nánari upplýsingar:

Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar eru kjósendur vinsamlegast beðnir um að samband við sendiráð áður en mætt er á kjörstað. Hafa ber í huga að aðstæður sem hafa skapast vegna faraldursins geta haft áhrif á hvort hægt verði að kjósa hjá kjörræðismönnum.

Kjósendur eru beðnir um að framvísa íslenskum persónuskilríkjum með mynd, þ.e. vegabréfi eða ökuskírteini. Kosningarrétt eiga allir íslenskir ríkisborgarar sem náð hafa átján ára aldri á kjördag, 19. febrúar 2022 og sem skráðir eru með lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi á Íslandi, þremur vikum fyrir kjördag.

Atkvæðagreiðslan fer þannig fram að kjósandi stimplar eða ritar á kjörseðil orðið „já“ ef hann er hlynntur tillögu um sameiningu sveitarfélaganna eða „nei“ ef hann er mótfallinn tillögunni.

Athygli kjósenda er vakin á því, að þeim ber sjálfum að póstleggja atkvæði sín eða koma þeim á annan hátt í tæka tíð til viðkomandi kjörstjórnar á Íslandi. Kjósendur eru því hvattir til að vera tímanlega á kjörstað, þar sem póstsendingar gætu tekið lengri tíma en vant er.

Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga