Frá Skagastrandarhöfn
Frá Skagastrandarhöfn
Fréttir | 06. janúar 2022 - kl. 15:26
239 tonna byggðakvóti í Húnaþing

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur úthlutað almennum byggðakvóta vegna fiskveiðiársins 2021/2022. Alls er úthlutað til 50 byggðarlaga í 29 sveitarfélögum. Þrjú byggðarlög fá 300 þorskígildistonna hámarksúthlutun og sextán byggðarlög fá 15 þorskígildistonna lágmarksúthlutun, þar á meðal er Blönduósbær. Skagaströnd fær 154 tonn og Hvammstangi fær 70 tonn. Alls fær Norðurland vestra úthlutað 394 þorskígildistonn.

Af öðrum landshlutum fá Vestfirðir mest úthlutað eða 1.812 tonn. Þar á eftir kemur Norðurland eystra með 1.031 tonn. Austurland fær 779 tonn, Vesturland 282 tonn, Suðurland 170 tonn og Suðurnes 155 tonn.

Úthlutunin byggir á reglum sem fram koma í 4. gr. reglugerðar nr. 919/2021, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2021/2022, og upplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2011/2012 til fiskveiðiársins 2021/2022.

Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að á heildina litið er óverulegar breytingar á því magni í þorskígildistonnum sem einstök byggðarlög fá úthlutað. Þó eru átta byggðarlög þar sem úthlutun dregst saman milli ára sem skýrist einkum af samdrætti í heildarúthlutun milli ára. Samdráttur í heildarúthlutun frá fiskveiðiárinu 2020/2021 nemur 179 þorskígildislestum.

Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins og sundurliðun á úthlutun einstakra byggðarlaga má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga