Fréttir | 11. janúar 2022 - kl. 18:50
Samstarfssamningur Umf. Hvatar, Umf. Kormáks og Umf. Tindastóls í knattspyrnu yngri flokka félaganna

Um áramótin var undirritaður samningur á milli knattspyrnudeilda Umf. Hvatar, Umf. Kormáks og Umf. Tindastóls um samstarf félagana í yngri flokkum liðanna í knattspyrnu. Mun þetta sameiginlega lið leika á Íslandsmóti KSÍ í knattspyrnu tímabilið 2022. Nær samstarfið yfir þátttöku þriðja og fjórða flokk kvenna og karla og annan flokk karla. Liðin munu keppa undir nafninu Tindastóll/Hvöt/Kormákur.

Haft er eftir Þórólfi Sveinssyni, yfirþjálfara yngri flokka Tindastóls að þetta séu frábærar fréttir og stór þáttur í að byggja upp öfluga yngri flokka landshlutans. „Einnig erum við að horfa á að með þessari sameiningu getum við búið til flott lið í öðrum flokki karla og kvenna. Í FNV er knattspyrnuakademía sem við erum að efla enn frekar og því er þetta frábært fyrir allt samfélagið hér í heild“ segir Þórólfur.

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga