Pistlar | 12. maí 2022 - kl. 10:53
Betur má ef duga skal - Nokkur orð um stjórnunarhætti og lýðræðið
Eftir Elínu Aradóttur

Þó hlýindum sé ekki enn fyrir að fara, þá er farið að grænka og það er vorhugur í fólki. Við erum mörg sem sækjumst eftir því að koma að stjórnun nýs sameinaðs sveitarfélags Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar. Sjötíu og tveir íbúar eiga sæti á alls fjórum framboðslistum, sem sýnir sannarlega að það er virkni og vilji í samfélaginu til góðra verka. Í mínum huga er mjög mikilvægt að til sveitarstjórnastarfa veljist fólk sem hefur skýra sýn á viðfangsefnin. Við þurfum fólk sem er lausnamiðað, vandvirkt og með fjölbreyttan bakgrunn.

Upplýsingar eru lykillinn að ákvarðanatöku

Fráfarandi stjórnendur Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar eiga þakkir skildar fyrir að hafa verið reiðubúin að verja tíma sínum í þágu íbúanna á liðnum árum. Mörg þeirra, sem nú eru við stjórnvölinn, sækjast eftir því að halda í stjórnartaumana áfram og því er mjög mikilvægt að kjósendum verði gefið færi á að dæma þau af verkum sínum. Hér er hins vegar pottur brotinn þar sem svo virðist sem það skorti á vilja til upplýsingamiðlunar til íbúanna, nú í aðdraganda kosninga. Þetta gildir bæði um stjórnendur Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps.

Í sveitarstjórnarlögum kemur eftirfarandi fram:

„Ársreikningur sveitarfélags skal fullgerður og samþykktur af byggðarráði eða framkvæmdastjóra sveitarfélags þar sem ekki er byggðarráð og tilbúinn til endurskoðunar og afgreiðslu í sveitarstjórn fyrir 15. apríl ár hvert.“ (61. gr).

Ársreikningar sveitarfélaga eru eitt helsta tæki stjórnenda sveitarfélaga til að miðla upplýsingum til íbúanna, ríkisins, lánadrottna og annarra hagsmunaaðila. Í þeim kemur fram hvernig stjórnendum hefur gengið að reka “batteríið“, sem og hver sé skulda-, eigna- og lausafjárstaða sveitarfélagsins. Lykilupplýsingar úr ársreikningi segja því mikið til um hvaða burði viðkomandi sveitarfélag hafi til að veita þjónustu og takast á við ný verkefni í framtíðinni, … Já, og þar með hvaða fyrirheit er raunsætt að gefa fyrir komandi tíma.

Svona er staðan ríflega tveimur sólarhringum fyrir sveitarstjórnarkosningar, hér á okkar svæði:

  • Stjórnendur Húnavatnshrepps hyggjast ekki taka ársreikning fyrir árið 2021 til fyrri umræðu fyrr en í fyrsta lagi í lok næstu viku. Engin gögn verða því kynnt íbúunum fyrir kosningar.
  • Stjórnendur Blönduósbæjar kynntu drög að ársreikningi í gær (síðdegis, 11. maí), þremur sólarhringum fyrir kosningar. Hér er um óopinber gögn að ræða, sem ekki hafa verið birt almenningi, heldur eingöngu því fólki sem sótti viðkomandi sveitarstjórnarfund. Þetta er fyrirvarinn sem gefinn er fyrir þá sem áhuga hafa á því að kynna sér hvernig farið hefur verið með almannafé.

Þessi vinnubrögð núverandi stjórnenda sveitarfélaganna okkar, einkennasti ekki af mikilli drift eða vandvirkni. Þau bera heldur ekki með sér vilja til að halda íbúunum upplýstum. Það að miðla ekki grundvallarupplýsingum um fjárhag sveitarfélaganna, samkvæmt gildandi reglum, er ólýðræðislegt, óviðunandi og takmarkar möguleika kjósenda á að taka upplýsta ákvörðun í kjörklefanum á laugardaginn.

Hvað fær nýtt sveitarfélag í heimanmund?

Kjósendur í fyrstu sveitarstjórnarkosningum í nýju sveitarfélagi hljóta að velta því fyrir sér hvaða búi núverandi stjórnendur Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar skili inn í nýtt sameinað sveitarfélag?

  • Um stöðu Húnavatnshrepps er erfitt að fullyrða, þar sem síðasti ársreikningur sýnir stöðuna á uppgjörsdegi fyrir ríflega 16 mánuðum síðan, … sem sé, eingöngu gamlar tölur í boði fyrir þá sem vilja kynna sér málið. Þó rekstur og skuldastaða sveitarfélagsins virðist hafa verið í nokkuð góðu jafnvægi á árunum 2018 til og með 2020, hljóta að vakna spurningar um hvers vegna nýrri upplýsingum er ekki miðlað til íbúa/kjósenda.
  • Ársreikningur Blönduósbæjar 2021 hefur nú, „korter í kosningar“, verið tekin til fyrri umræðu í sveitarstjórn. Ekki er sanngjarnt að fara hér í þessari grein með óstaðfestar tölur, en ljóst er að rekstrartekjur Blönduósbæjar á árinu 2021 dugðu ekki fyrir rekstrargjöldum og afborgunum langtímalána og því þurfti að taka ný lán, að hluta, til að standa undir afborgunum eldri lána. Nýjar fjárfestingar voru fjármagnaðar með nýjum lántökum og sölu eigna. Skuldaaukning Blönduósbæjar, umfram eignamyndun, var því veruleg á árinu 2021.

Stefna B-listans

Við sem skipum lista Framsóknar og annarra framfarasinna áttum okkur á því að þegar kemur að rekstri sveitarfélags, er auðveldara um að tala en í að komast. Við skiljum líka að stofnun og samræming verkefna í nýju sveitarfélagi verður flókið ferli, en í krafti okkar fjölbreyttu reynslu, menntunar og tengslanets erum við sannfærð um að við getum komið með vönduð vinnubrögð og ferska strauma inn í stjórnun nýs sveitarfélags. Okkar sýn á fjármálastjórnun byggir á raunsærri nálgun. Sveitarfélög eru rekstrareiningar, sem til lengri tíma litið, hljóta að þurfa að vera fjárhagslega sjálfbærar. Tekjur sveitarfélagsins þurfa að duga fyrir gjöldum. Á sama tíma þurfa þau að hafa burði til að viðhalda og byggja upp innviði og þjónustu. Líkt og í öðrum rekstri verður slíkt ekki gert með hentistefnu, heldur með langtímaáætlun þar sem sett er fram forgangsröðun og skýr áform um fjármögnun. Við höfum í stefnuskrá okkar tiltekið að slíka áætlun viljum við gera fyrir uppbyggingu íþróttamannvirkja sem og fyrir húsnæði skóla-, menningar- og frístundastarfsemi. Við viljum vanda okkur við verkefnin.

Það er freistandi að lofa stórum fjárfestingum og lækkun álaga á íbúanna í þeirri trú að fólk velti því ekki einu sinni fyrir sér hvort innstæða sé fyrir slílkum loforðum. Vinur minn sagði við mig um daginn, „Elín! Þú vinnur engar kosningar á því að boða aðhald“. Líklega er þetta rétt hjá honum. Ég er hins vegar þannig gerð að mér finnst eiginlega enn verra að gefa loforð sem ekki er hægt að standa við. 

Tryggjum framsókn og framfarir !

Setjum X við B þann 14. maí nk.

Elín Aradóttir

Skipar 2. sæti á lista Framsóknar og annarra framfarasinna

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga