Fréttir | 15. maí 2022 - kl. 08:20
D-listi stærstur í sameinuðu sveitarfélagi
Langflestir vilja að nýtt sveitarfélag fái nafnið Húnabyggð

Úrslit sveitarstjórnarkosninga í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps liggja fyrir. Alls kusu 801 eða 83,7% en á kjörskrá voru 957. D-listi Sjálfstæðismanna og óháðra fékk flest atkvæði eða 296, B-listi Framsóknar og annarra framfarasinna fékk næst flest atkvæði eða 249, H-listi fékk 140 atkvæði og G-listi Gerum þetta saman fékk 100 atkvæði. Auðir seðlar voru 13 og aðrir ógildir seðlar 3.

Úrslitin þýða að D-listi fær fjóra menn kjörna, B-listi þrjá, H-listi einn og G-listi einn. Ný sveitarstjórn verður þá skipuð þeim Guðmundi Hauki Jakobssyni, Ragnhildi Haraldsdóttur, Zophonías Ara Lárussyni, Birgi Þór Haraldssyni, Auðunni Steini Sigurðssyni, Elínu Aradóttur, Grími Rúnari Lárussyni, Jóni Gíslasyni og Eddu Brynleifsdóttur.

Húnabyggð með 69% stuðning
Samhliða sveitarstjórnarkosningunum fór fram könnun á viðhorfi íbúa til þriggja nafna á sameinað sveitarfélag. Langflestir eða 443 völdu nafnið Húnabyggð. Blöndubyggð fékk 144 atkvæði og Húnavatnsbyggð 53. Könnunin er leiðbeinandi fyrir sveitarstjórn nýs sveitarfélags sem tekur við stjórn þess 29. maí næstkomandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga