Fréttir | 17. júní 2022 - kl. 17:01
Starf sveitarstjóra Húnabyggðar auglýst

Sveitarstjórn Húnabyggðar óskar eftir að ráða sveitarstjóra. Húnabyggð er nýtt sveitarfélag sem varð til við sameiningu Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps fyrr á árinu. Leitað er að metnaðarfullum og kraftmiklum aðila til að leiða áframhaldandi uppbyggingu samfélagsins. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst og er umsóknarfrestur 3. júlí næstkomandi.

Helstu verkefni:

  • Sveitarstjóri er æðsti yfirmaður starfsfólks sveitarfélagsins og sér um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum og samþykktum.
  • Daglegur rekstur sveitarfélagsins og ábyrgð á framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar.
  • Yfirumsjón með skipulagi og virkni stjórnsýslu sveitarfélagsins og starfsmannamálum.
  • Náið samstarf við sveitarstjórn, undirbúningur og upplýsingagjöf á fundum sveitarstjórnar og byggðarráðs.
  • Annast upplýsingamiðlun og samskipti við samstarfsaðila, stofnanir, samtök, fyrirtæki og íbúa.
  • Gæta hagsmuna sveitarfélagsins út á við, vera talsmaður sveitarstjórnar og vinna að framfaramálum.
  • Stefnumarkandi vinna og mótun framtíðarsýnar í ólíkum málaflokkum.
  • Leiða vinnu við stafræna vegferð sveitarfélagsins.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun sem nýtist í starfi.
  • Farsæl reynsla af stjórnun, rekstri og fjármálum.
  • Reynsla af stefnumótun, kynningar- og ímyndarmálum.
  • Áhugi á og reynsla af eflingu atvinnulífs til að stuðla að vexti samfélagsins.
  • Leiðtogahæfni, frumkvæði og hugmyndaauðgi.
  • Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum ásamt þjónustulund.
  • Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
  • Góð þekking á sveitarstjórnarmálum og af lögum og reglugerðum í opinberri stjórnsýslu.
  • Óflekkað mannorð.

Íbúar sveitarfélagsins eru um 1.320, þar af búa liðlega 900 í þéttbýlinu Blönduósi, en sveitarfélagið samanstendur af þéttbýliskjarnanum Blönduósi og víðfeðmum, gróskumiklum sveitum. Stærð sveitarfélagsins er rúmlega 4.000 ferkílómetrar. Í þéttbýlinu Blönduósi er grunn- og leikskóli, íþróttaaðstaða, sundlaug, slökkvistöð og skrifstofa sveitarfélagsins, heilsugæsla og margs konar önnur þjónusta. Á Húnavöllum er rekinn grunn- og leikskóli á vegum nýja sveitarfélagsins. Húnabyggð er öflugt og fjölbreytt samfélag með litskrúðugu mannlífi og atvinnulífi sem og miklum uppbyggingar möguleikum og margvíslegum tækifærum. Í Húnabyggð er fjölskylduvænt samfélag með hátt þjónustustig og metnaðarfullt leik- og grunnskólastarf. Möguleikar til útivistar, íþróttaiðkunar, afþreyingar og félagsstarfa eru fjölmargir í sveitarfélaginu fyrir íbúa þess og gesti.

Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilskrá og kynningarbréf. Nánari upplýsingar veita Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@hagvangur.is og Þórdís Sif Arnarsdóttir, thordis@hagvangur.is.  

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga