Fréttir | 20. júní 2022 - kl. 10:12
Í fylgd frelsarans
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Ég er svo óendanlega þakklátur fyrir fylgd frelsarans í þessu lífi. Án hans væri ég ekki neitt og hefði ekkert að segja eða gefa. Hans sem er fullkomnari lífsins og einn er fær um að gefa okkur þann frið í hjarta sem við svo mörg þráum. Hans sem gaf líf sitt svo við fengjum lifað með honum um eilífð. Hver býr annars yfir meiri kærleika en það?

Lífsins ilmur

Um leið og ég hef á undanförnum árum fundið þefinn af dauðanum, illan fnyk sem skekur tilveruna og dregur úr manni kjark og þrótt og veldur máttleysi og þreytu. Þá hef ég jafnframt fengið að finna svo sterkt ilminn af lífinu, svo undursamlega angan sem veldur bjartsýni, von og brosi í gegnum tárin. Ilm sem vekur hugsjón og ástríðu til að vera með, halda áfram. Því lífið hefur sigrað dauðann í eitt skipti fyrir öll. Það er niðurstaðan sem jú öllu máli skiptir. Því að um leið og það þarf að tengja lífið okkar við mennskuna þá þörfnumst við jafnframt himneskrar leiðsagnar. Því sáttin í hjartanu, huggunin og friðurinn fæst með samruna himins og jarðar. Himneskri jarðtengingu. Sítengingu við lífið.

Veljum lífið hvernig sem allt kann að velkjast í veröldinni.

Í þakklæti með kærleiks- friðar- og eilífri sumarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga