Fréttir | 20. júní 2022 - kl. 11:50
Fjórði tapleikurinn í röð

Dalvík/Reynir tók á móti Kormáki Hvöt á Dalvík á fimmtudaginn þegar leikið var í 3. deild karla á Íslandsmótinu í Knattspyrnu. Leikurinn byrjaði ekki gæfulega fyrir gestina sem fengu á sig þrjú mörk á fyrstu 23 mínútum leiksins. Ante Marcic náði að klóra í bakkann fyrir Kormák Hvöt með góðu marki og voru hálfleikstölur 3-1. Heldur meira jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik.

Dalvík/Reynir setti mark á 58. mínútu en Sigurður Bjarni Aadnegard svaraði fyrir Kormák Hvöt á 78. mínútu. Leikurinn endaði 4-2 og hefur Kormákur Hvöt nú tapað fimm leikjum af sjö í deildinni og eru í næstneðsta sæti með sex stig og markahlutfallið mínus fimm mörk. Næsti leikur er heimaleikur, gegn Elliða sem situr í 5. sæti deildarinnar með 13 stig. Leikurinn fer fram á laugardaginn klukkan 14 á Blönduósvelli.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga