Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki. Mynd: FB/Bjarni Jónsson
Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki. Mynd: FB/Bjarni Jónsson
Fréttir | 30. september 2022 - kl. 13:22
Alexandersflugvöllur á Sauðárkróki verði varaflugvöllur fyrir millilandaflug

Bjarni Jónsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis, hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að gerð verði ítarleg athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli. Annar þingmaður úr Norðvesturkjördæmi, Bergþór Ólason, er meðflutningsmaður. Verði tillagan samþykkt mun Alþingi fela innviðaráðherra að gera ítarlega athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að Alexandersflugvöllur sé vel staðsettur þar sem aðflug sé gott, fjörðurinn víður og lítið um hindranir. „Við höfum verið rækilega minnt að undanförnu á eldfjallavirkni í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og á Reykjanesi og þá áhættu sem það skapar fyrir millilandaflug. Það er því mikil þörf á varaflugvelli þar sem aðstæður til lendingar og flugtaks eru sem bestar, ekki mjög fjarri Keflavíkurflugvelli og einnig flugvellinum á Akureyri. Aðrir flugvellir uppfylla það ekki eins vel. Það er því mjög margt sem mælir eindregið með því nú að Alexandersflugvöllur verði gerður að varaflugvelli,“ segir Bjarni í færslu á facebooksíðu sinni.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga