Bænhús Gunnsteinsstöðum, sagt elstahús landsins 1929. Mynd: FB/Ljósmyndasafn HAH
Bænhús Gunnsteinsstöðum, sagt elstahús landsins 1929. Mynd: FB/Ljósmyndasafn HAH
Skattholinu eins er 106 cm á hæð, 113 á breidd og 56 á dýpt.
Skattholinu eins er 106 cm á hæð, 113 á breidd og 56 á dýpt.
Pistlar | 14. október 2022 - kl. 09:15
Sögukorn: Jóhannes á Gunnsteinsstöðum
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
  1. Jóhannes Guðmundsson 1823-1879
    var á Guðlaugsstöðum 1835
    bóndi á Gunnsteinsstöðum 1860
    bóndi í Hólabæ 1870
    fór 1878 frá Móbergi að Undirfelli
    varð þar ráðsmaður, lést 66 ára.
    Svo segir Íslendingabók + viðbætur.
     
  2. Gunnar Árnason prestur á Æsustöðum skrifar í Sögufélagsrit 2, Hlyni og hreggviði:
    „Þó að Jóhannes tæki sjálfur ástfóstri við Bólstaðarhlíðarhrepp og enginn vildi þar af honum sjá, auðnaðist honum ekki að bera þar beinin né eiga gröf í Langadal. Missti konu sína vorið 1876, sú holskefla sleit Jóhannes upp að fullu. Eftir það var hann aðeins reikult þang. Hann var svo sem ekki gamall maður, um það bil hálfsextugur, en sjóvelktur og saddur lífdaga. Búinn að ljúka sínu ætlunarverki, að honum sjálfum fannst, eftir því sem næst verður komist.
    Útslitinn, meir af andlegum raunum en líkamlegu erfiði.
    Nú var hann litla hríð á lausum kili, svo bar hann að landi á ólíklegum stað. Hjörleifur prestur á Undirfelli skaut skjólshúsi yfir þennan fornvin sinn og fyrrum sóknarbarn frá því hann var prestur í Blöndudalshólum. Bauð hann Jóhannesi til sín undir því yfirskyni að hann væri ráðsmaður klerks. Þá Jóhannes þetta vinarboð og mun hafa farið að Undirfelli vorið 1878."
    Sr. Gunnar Árnason/Hlynir og hreggviðir bls. 206
     
  3. Stundum í óþurrkatíð er heiðríkt að morgni (dagmálaglenna) en þykknar upp og syrtir að um eða eftir hádegið og um miðaftan er ef til vill komin úrhellisrigning sem ónýtir erfiði dagsins.
    Búskaparsögu Jóhannesar á Gunnsteinsstöðum var svipað farið. Honum var mikið lagt upp í hendurnar, enda færðist hann þegar mikið í fang. Allt virtist leika í lyndi og liggja í skauti. Hann virtist borinn til sveitarhöfðingja, einnig í þeim skilningi að auðsæld hans myndi vaxa með hverju ári.
    En þetta fór á annan veg. Það voru aðeins fyrstu árin sem efnahagur hans blómgaðist. Fljótlega komst hann í meiri og minni kröggur fjárhagslega og var að síðustu snauður maður.
    Sr. Gunnar Árnason/Hlynir og hreggviðir bls. 189
     
  4. Jóhannes var prýðilega ritfær maður.
    Til er smáskrýtla um viðurkenning sveitunganna á þessum hæfileika hans. Fyrsta hreppsnefndin í Bólstaðarhlíðarhreppi hafði komið á fund á Skeggsstöðum og gist þar um nóttina. En Jóhannes lagði á sig vöku við nauðsynlegar skriftir fyrir hönd nefndarinnar. Um morguninn vakti hann samstarfsmenn sína með ávarpi, sem meðal annars fól í sér lýsingu á afköstum þeirra. Þótti þeim slík vera orðsnilldin og bragurinn, að sumir voru komnir fáklæddir fram á gólfið áður en þeir vissu af. Varð Guðmundi á Bollastöðum þá að orði: „Ó, mikið gull er að heyra til þín núna þó hart sé að þola það."
    GÁ/Hlynir og hreggviðir. 186
     
  5. Það eru ekki miklar ýkjur þótt sagt sé, að aldrei hafi kólnað á katlinum í tíð þeirra Jóhannesar og Sólveigar. Þau bjuggu í þjóðbraut og það var segin saga, að næstum hver maður varð að koma við, annað hvort af nauðsyn, eða aðeins til að skemmta sér og fá góðgerðir.
    Öllum var tekið tveim höndum. Og hraktir og svangir voru þar sem í foreldrahúsum.
    Einn förumaðurinn, Stefán fíni Ólafsson, er sagt að kvæði við fráfall Sólveigar:

Skarð nú fyrir skjöldinn bar
því skjóls með huga glöðum
Sólveig margan svangan þar
saddi á Gunnsteinsstöðum.GÁ/Hlynir og hreggviðir 192

  1. Bróðursonur Jóhannesar á Gunnsteinsstöðum, Guðmundur Hannesson læknir frá Guðlaugsstöðum fær eftirfarandi lýsingu hjá greinarhöfundi, Gunnari Árnasyni:
    Eins og alkunnugt er, var Guðmundur einhver fjölhæfasti gáfumaður hérlendis á þessari öld, hugvitsmaður hinn mesti og síhugsandi um óteljandi hluti. Hann taldi sér allt mannlegt viðkomandi.
    Það er haft eftir Elínu Arnljótsdóttur, að hún hafi látið svo ummælt um Guðmund sonarson sinn, þegar hann var barn:
    „Ég held hann ætli að fá gáfurnar hans Jóhannesar."
    Og aðra hef ég heyrt segja í þá átt að „Guðmundur Hannesson hefði orðið alveg sams konar maður og Jóhannes, ef hann hefði ekki lært" GÁ/Hlynir og hreggviðir 183
     
  2. Jóhannes á Gunnsteinsstöðum var lausaleiksbarn bóndasonarins á Guðlaugsstöðum og Þórönnu Þorsteinsdóttur vinnukonu á sama bæ.  Faðirinn, Guðmundur, á ekki að hafa tekið það neitt nærri sér þótt honum yrði þetta á. Eitt sinn er um það var rætt, er talið að hann kastaði í glettni fram þessari vísu:

Hann var brellinn hrekkjakarl
hún ei snauð af dyggðum
þau á grasa- fóru fjall
fram af mannabyggðum.GÁ/Hlynir og hreggviðir 145

  1. Guðmundur kvæntist 5 árum síðar Elínu Arnljótsdóttur, frænku sinni frá Gunnsteinsstöðum. Er sagt að feður þeirra hefðu löngu áður um þetta samið. Vorið eftir reistu þau bú á Brún í Svartárdal og bjuggu þar í fimm ár. Ætla eg að Jóhannes hafi verið þar með þeim og átt þaðan eins og gengur sumar sínar ljúfustu æskuminningar.
    GÁ/Hlynir og hreggviðir 145
     
  2. Eftir að Guðmundur Arnljótsson kom frá Brún og tók við búi á Guðlaugsstöðum úr höndum föður síns, gerðist hann skjótt virðingarmaður í sveit sinni. Hann varð hreppsstjóri og forgöngumaður í almennum félagsmálum í héraðinu.
    Þá var voröld sú, sem þeir vöktu Baldvin Einarsson og Jón Sigurðsson síðar. Guðmundur fagnaði hinni þjóðlegu umbótastefnu með opnum huga og tók brýningarboðskap frumherjanna tveim höndum.
    Hann var reiðubúinn að leggja hönd á plóginn og sýndi það í verki.
    GÁ/Hlynir og hreggviðir 147
     
  3.  Guðmundur Arnljótsson þótti snemma mikið mannsefni og m. k. miklu námgjarnari og bókelskari en almennt gerðist. Hann var ekki fríður, en gáfumannlegur, stillilegur og góðmannlegur. Hann var kíminn og góðlátlegur, tilfinningamaður undir niðri, framsækinn félagsmálamaður og vinsæll. Þau Guðmundur og Elín áttu 8 börn er upp komust og er margt dugnaðar- og gáfufólk frá þeim komið. GÁ/Hlynir og hreggviðir 147
     
  4.  Í héraðsritinu Föðurtúnum segir:
    Guðmundur alþm. Arnljótsson var einn af ágætismönnum íslenskrar bændastéttar og forystumaður um ýmis búnaðar- og menningarmál.

    Gísli Konráðsson lýsir Guðmundi svo: Lesinn er hann, en honum þó margt óljóst. Hann er hæglyndur og heldur seinlegur í bragði, lágur vexti, dökkur á hár og ei fríður sýnum.

    Synir þeirra Elínar voru: Hannes smiður á Eiðsstöðum, Arnljótur bóndi á Syðri-Löngumýri og Jón bóndi á Guðlaugsstöðum, en dætur: Elín kona Jóhanns hrstj. á Brúnastöðum, Guðrún hfr. á Guðrúnar-stöðum, móðir Guðm. Ólafssonar alþm. í Ási og Ingibjörg kona Sigurðar Jónssonar á Eldjárnsstöðum, en meðal barna þeirra voru, Engilráð kona Þorkels á Barkarstöðum, Guðrún kona Jónasar í Brattahlíð og Jón bóndi á Brún, faðir Sigurðar skálds, kennara og hestamanns frá Brún. Sjá neðar ljóð hans úr Svartárdal

    Jón Guðmundsson á Guðlaugsstöðum fluttist þaðan að Stóradal við lát Jóns Jónssonar mágs síns og tók þá við jörðinni Páll Hannesson bróðursonur hans, kvæntur Guðrúnu dóttur Björns Eysteinssonar.
    Páll V. G. Kolka: Föðurtún 138
     
  5.  Vorið 1846 stungu þeir Þorlákur prestur Stefánsson í Blöndudals-hólum og Guðmundur hreppstjóri á Guðlaugsstöðum upp á því við nágranna sína að stofna lestrarfélag. Var því strax vel tekið, félagið stofnað og nefnt Lestrarfélag Blönddælinga.
    Forseti þess var kjörinn Guðmundur Arnljótsson.
    Eignaðist þar strax á fyrsta ári 39 bindi af ýmsum bókum.
     
  6.  Stofnun þessa félags mun hafa orðið til þess, að skólapiltur, Arnljótur Ólafsson á Auðúlfsstöðum, fór strax sama ár að reyna að stofna lestrarfélag og fékk í fylgi með sér Jónas Pétursson á Gunnsteins-stöðum, uppeldisson Arnljóts hrstj. Árnasonar þar. Varð sá árangur, að 11 menn gengu í félag og lofuðu samtals 10 ríkisdala árstillagi.
    Félag þetta nefndu þeir Lestrarfélag Langdælinga.
     
  7.  Þrátt fyrir ötula forgöngu Arnljóts Ólafssonar og Gísla bróður hans, varð þó viðgangur þess félags lítill fyrstu árin. En svo fluttist Jóhannes Guðmundsson að Gunnsteinsstöðum árið 1848. Var hann strax á fyrsta ári sínu þar kosinn forseti Lestrarfélags Langdælinga. Átti það þá 27 bindi af bókum eftir þriggja ára starfsemi.
    Jónas Bjarnason Búnaðarfélög Svínavatns- og Bólstaðarhlíðarhreppa Ak. 1944 bls. 25
     
  8.  Á fundi Lestrarfélagsins 9. apríl 1853 börðust þeir feðgar Guðmundur á Guðlaugsstöðum og Jóhannes á Gunnsteinsstöðum fyrir því að stofnaðir væru sjóðir í jarðabótafélögunum og skyldu þeir verða mönnum til styrktar við framkvæmdirnar, einkum er fátækir menn ættu í hlut. Flestir bændir sem , sem mættir voru úr Bólstaðarhlíðarhreppi, studdu þessa hugmynd hinna framsýnu feðga. Erlendur í Tungunesi mælti á móti og flestir Svínvetningar, Töldu ekki almenning hafa ráð né vilja til slíks.
    Guðmundur á Bollastöðum mælti með nokkurs konar málamiðlun. Varð svo ekki af sjóðsstofnuninni um sinn.
    GÁ/Hlynir og hreggviðir 172
     
  9.  Ættbogi hinn fyrri:
    Jón Pálsson hrstj. Hvammi Vatnsdal f. 1732
    Rannveig Jónsdóttir hfr. á Guðlaugsstöðum f. 1776
    Guðmundur Arnljótsson Guðlaugsstöðum f. 1802
    Jóhannes á Gunnsteinsstöðum 1823-1879 giftur Sólveigu Benediktsdóttur frá Eiðsstöðum, þau hjónin misstu öll börn sín, átta að tölu, en þau tóku til fósturs Sigríði Gísladóttur úr fjölmennum systkinahópi á Eyvindarstöðum.
    Sigríður varð síðar húsfreyja í Gautsdal og á Æsustöðum. Þau Æsustaðahjón voru börn hálfsystra, þeirra Elísabetar og Guðrúnar Pálmadætra.
    En hjónin, þau Sigríður og Pálmi Sigurðsson eignuðust fimm börn er upp komust:
    Jón Jóhannes í Gautsdal f. 1876
    Guðrúnu Sólveigu á Bjarnastöðum f. 1878
    Sigurð kaupmann á Hvammstanga f. 1884
    Jósefínu Þórönnu í Holti f. 1887 og
    Gísla organista á Bergsstöðum f. 1894
     
  10. Ættbogi hinn síðari:
    Jón Pálsson hrstj. Hvammi Vatnsdal f. 1732
    Málfríður Jónsdóttir hfr. Valdarási
    Sigurður Sigurðsson Gautsdal
    Pálmi Sigurðsson Æsustöðum
    Guðrún á Bjarnastöðum/Jósefína í Holti og bræðurnir þrír,
    Jón, Sigurður og Gísli Pálmasynir.
     
  11.  Gunnsteinsstaðahjónin Sólveig og Jóhannes tóku, auk áðurnefndrar Sigríðar Gísladóttur, til fósturs Jón Jakobsson Espólín f. 1863, síðar bónda á Auðólfsstöðum og í Köldukinn. Mörg börn fóstruðu þau einnig um lengri eða skemmri tíma.
     
  12.  Jóhannes naut ástríkis af hendi föður síns og umönnunar af hálfu Elínar. Ekki er annars getið en hún væri honum jafnan góð. Hann mun líka hafa verið hlýðinn og auðsveipur, sennilega fremur hljóðlátur og dulur. Engum gat dulist meðfætt atgjörvi hans til líkama og sálar. Að vísu var hann ekkert fríðleiksbarn, en snemma hamhleypa til verka, þegar á reyndi og bókaormur, ef hann fékk að vera sjálfráður.

    Þá var ekki barnaskólunum til að dreifa og fæstir bændasynir dirfðust að æskja þess að vera sendir í Bessastaðaskóla. Þeim fannst það eins og sjálfgefið að þeir yrðu alla ævina heima í sveitinni. En stóru heimilin eins og Guðlaugsstaðir voru mikill skóli.
    GÁ/Hlynir og hreggviðir 149
     
  13.  Jóhannes kvongaðist þegar hann var hálfþrítugur. Vart mun faðir hans hafa skipt sér af því hvaða konu hann valdi sér og lágu til þess fullgildar ástæður. Og naumast hefur Elín verið spurð ráða um það efni.

    Jóhannes gekk að eiga heimasætu á Eiðsstöðum, næsta bæ fyrir framan Guðlaugsstaði. Hún hét Sólveig Benediktsdóttir, Tómassonar. Var Benedikt bróðir Ólafs á Eyvindarstöðum. Þeir bræður voru smiðir. Sonur Benedikts og bróðir Sólveigar var Helgi sem lengi bjó á Svínavatni.

    Ekki mun Sólveig hafa þótt í hópi hinna mestu kvenkosta en þau Jóhannes voru nákunnug og sjálfsagt snemma vel til vina. Þau reyndust og hvort öðru vel til æviloka. GÁ/Hlynir og hreggviðir 150
     
  14.  Sólveig Benediktsdóttir, kona Jóhannesar, fékk ævinlega besta orð. Heimilið var hennar heimur. Hjúin lofuðu hana sem ágæta húsmóður og hverjum gesti tók hún opnum örmum. Af því hlaut hún miklar vinsældir.
    Hún mun hafa verið í meðallagi há, snoturlega vaxin, fremur ófríð í andliti, en góðmannleg. Bóklærdóm hefir hún vafalaust engan hlotið og hugurinn að mestu bundinn við heimilisstörfin. Þess vegna hefur sálufélag þeirra Jóhannesar vísast verið takmarkað. En hún var hans hægri hönd við bússtörfin og dró vafalaust ekki úr því, sem hann vildi vel. Hjónaband þeirra var því friðsælt og ástúðlegt.
    Þau Sólveig og Jóhannes eignuðust átta börn og misstu þau öll á unga aldri. Flest dóu þau í fyrstu bernsku, en sum stálpuð. Síðasta og þyngsta höggið mun það hafa verið, að árið 1866 dóu þær um sumarmálin systurnar Þóranna yngri (9 ára d. 14. apríl) og Ingigerður (11 ára, d. 19. apríl).
    Margir foreldrar áttu oft um sárt að binda á þessum árum. Ýmiss konar landfarsóttir gengu eins og logi yfir akur og eyddu ungviðinu. Dauðinn hjó miskunnarlaust ótal græna sprota. Langfæstir foreldrar nutu þeirrar gleði að eiga lengi allan hópinn. En að halda engu eftir af átta ... Það var, sem betur fer, fádæmi. GÁ/Hlynir og hreggviðir 196
     
  15.  Hjónavígslan þeirra Sólveigar og Jóhannesar fór fram að Svínavatni en brúðkaupsveislan var haldin að Guðlaugsstöðum. Þessar sagnir hafa geymst síðan:
    Allmikið af borðbúnaði var fengið til láns í Stóradal til veislunnar. Var Gísli Sigurðsson fenginn til að búa um varninginn og flytja hann fram eftir. Gísli varð síðbúinn og komst ekki af stað fyrr en hjónavígslunni var lokið á Svínavatni og veislugestir riðu af stað áleiðis í Guðlaugs-staði. Kristján ríki í Stóradal sá til ferða Gísla og þótti hann fara helst til hægt. Hleypti Kristján til Gísla, þreif af honum tauminn á trússa-hestinum og þeysti áfram allt hvað af tók. Hrópaði Gísli dauðskelfdur á eftir honum, að allt mundi brotna. En Kristján kallaði um öxl: „Það er engin lukka ef það dugar ekki", og linaði ekki á sprettinum.
     
  16.  Svo mikill bindindismaður er sagt að Jóhannes væri þá, að hann legði blátt bann við, að vín væri veitt í veislunni. Þótti þá föður hans það miður, því venja var að hýrga menn með púnsi við slík tækifæri. Sigvaldi prestur Snæbjarnarson í Grímstungu á að hafa verið á ferð um þessar slóðir þennan dag og komið að Guðlaugsstöðum utan af Skagaströnd. Var honum borið vatn að drekka, en hann afþakkaði með þessum orðum:„Nei, þakka þér fyrir elsku bróðir. Ég er í dag búinn að sullast yfir Laxá og Blöndu – og fékk nóg – og gekk frá leifðu."
    GÁ/Hlynir og hreggviðir 151

    Langoftast var Blanda riðin á Hólavaði undan Blöndudalshólum. Þótti svo ákveðið að þar myndi enginn maður drukkna, ef Hólakirkja stæði opin. Í þá daga voru miklar samgöngur og félagstengsl milli Svínvetninga og Bólstaðarhlíðarhreppsmanna eins og víða er vikið að. GÁ/Hlynir og hreggviðir 146
     
  17.  Niðurlagsorð frá IHJ:
    Frænka mín, Sigríður Zóphóníasdóttir, þriðji liður frá nöfnu sinni, Sigríði á Æsustöðum, hringdi í mig í síðustu viku og var að leita að heimili fyrir skatthol Jóhannesar á Gunnsteinsstöðum. Það var varðveitt hjá föður Sigríðar, Zóphóníasi eldri á Blönduósi. Það ýtti við mér að setja upp þetta sögukorn sem er aðallega komið frá prestinum okkar góða, sr. Gunnari Árnasyni á Æsustöðum, en kenndi sig gjarnan við Skútustaði þar sem faðir hans var prestur.

    Hann lét aldrei sitt eftir liggja að leggja lið menningu héraðs og sveitar á árunum sínum hjá okkur fyrir norðan: Karlakórinn, sagnaritun og Sögufélagið nutu þar góðs af, eins og mín litla persóna nokkrum árum eftir að þau fluttu –  frá okkur dalbúunum 1952 – í Kópavog og kynntist þeim, prestsfjölskyldunni, öllum nema Árna, meðan ég dvaldi vetrarlangt hjá þeim, ellefu ára strákur í sjúkraþjálfun syðra en prestur varð einnig lærimeistari minn þennan vetur, rétt eins og hann hafði áður kennt börnum sínum heima á Æsustöðum.
    Svo hef ég fyrir satt að þessi ötuli rithöfundur og guðsmaður sé höfundur Kópavogskirkju. Þar var aðeins klappaholt þegar ég trítlaði um Digranesháls og Þingholtin vorið 1959.
    En nú vantar sögulok á þennan samtíning, hvernig presturinn og rithöfundurinn í Langadalnum, sr. Gunnar á Æsustöðum sá fyrir sér ævilok Jóhannesar á Gunnsteinsstöðum – inn í tignarleg Langadalsfjöllin:
     
  18. „Bólstaðarhlíðarmenn hefðu átt að kosta útför Jóhannesar í heiðurs og þakklætisskyni.
    Hann var sá vormaðurinn, sem best sáði til þess félagslyndis, sem þar hefur síðan þróast í fulla öld.

Til hans var oft vitnað um hugsjónir og göfuglyndi.
Hann var ráðagerðamaður mikill.
Sá alls staðar verkefnin og var oft skyggn á úrlausnirnar.

Honum lét að vísu betur að búa fyrir aðra en sjálfan sig.
Hefði vafalaust orðið merkur vísindamaður og háskólakennari, ef honum hefði auðnast að ganga inn á þá braut.
Þekkingarþorstinn óbilandi, góðviljinn frábær.
Var hann þá á rangri hillu.
Hví það?
Hann var salt jarðar í sveit sinni og hún þurfti hans við.

Hví skyldi þá um það sakast þó hann væri fátækur bóndi en hlæði ekki utan á sig auði og metorðum.
Glæsileiki gáfna hans varpar um hann ljóma.
En skuggar sorgarinnar og mæða fátæktarinnar eru hinn dökki bakgrunnur lífs hans.
Hann var því meir einmana sem á leið.
Hann var jafnan á undan sínum tíma og átti þess vegna samleið með fáum.
Og barnamissirinn gerða hann að raunamanni.
Og barn sorgarinnar situr hjá við gleðileik lífsins, jafnvel þótt það látist taka þátt í honum.

Ég hefi gert mér þessa mynd af Jóhannesi Guðmundssyni á efri árum hans, þegar hann er fluttur upp á Laxárdal: 

  1.  Það er vetrarkvöld.
    Stillt og frost.
    Jóhannes kemur ríðandi utan Langadal.
    Einn.
    Hann er hálf fornfálega búinn;
    kaskeytið hallast út í vangann og hann drúpir á hestinum niðursokkinn í þunga þanka.
    Öðru hvoru lítur hann þó upp og fagnar umhverfinu og ljósunum á bæjunum.
    Honum dettur í hug, hvað allt verður fagurt þegar vorið kemur.
    Svo nær hann að Auðólfsstaðaskarði.
    Nú eru Gunnsteinsstaðir, hvað þá kirkjugarðurinn á Holtastöðum, langt að baki.
    Tunglið er að koma upp og varpar töfrandi ævintýraljóma á bratta hlíðina að norðanverðu.
    Gatan að sunnan er enn öll í skugga.

    Og Jóhannes hverfur þar eins og inn í fjöllin ...

    Ég á líka aðra mynd af Jóhannesi.
    Og hún er yfirgripsmeiri og sannari.
    Ef ég væri listamaður hefði ég sett honum stein.
    Og fyrir neðan nafn hans hefði ég meitlað kerti, sem er að brenna niður í stjakann.
    Það væri ókunnugum tákn þess, sem hann var sveitungum og samferðamönnum.
    Minning hans var björt og hlý í hugum þeirra.
    Nú er samt gatan hans að verða algróin.
    En andi hans berst enn með sunnanblænum hér um hlíðarnar."

    Aðalheimild: sr. GunnarÁrnason frá Skútustöðum:
    Um Jóhannes á Gunnsteinsstöðum/Hlynir og hreggviðir Ak. 1950 bls. 208
     
  2.  Sigurður Jónsson frá Brún: Inga Sigurrós Jónsdóttir.

Þú gleymist aldrei, Inga mín,
og aldrei september.
Það lék um okkur leiftrafjöld,
– þess ljóss sem kvikast er, –
svo ljómar sól við háar-hý
um haust við fætur þér.

Hann pabbi okkur bæði bað
að bæla safnið allt.
Við gengum saman sauða til
og svo varð nöturkalt.
Ég man hvað leiddist litlum dreng.
Minn litli hugur svalt.

Þá fór að koma orð og orð
af ævafornri sögn
um vonir svik og sorg og lán
– og síðan eftir þögn –
um systurást, um ógn og þraut
og endurlausnarmögn.

Og stjarna birtist ein og ein
við Eiríksstaðahnjúk,
og túnið fór að breyta blæ,
sem borist hefði fjúk,
því fölleit hélu glóði gljá,
sem glytti í perludúk.

Og stjarna fæddist ein og ein
og alltaf bættist við,
en móðurlausra lamba hóp
að lokum þreytti bið.
Er máninn kom, hver sauðkind svaf
við sorgabróður hlið.

Úr þámi kvölds í heiði hátt
var himni öllum breytt.
Ég finn svo glöggt að það varst þú,
sem þetta hafðir veitt.
Með öðrum hefði ég ekkert séð
og ekki fundið neitt.

Nú ertu liðin Inga mín
og einnig september.
Nú segir enginn sögur þær,
er sagt þú hefir mér.
En þótt þú fyndir engin orð,
ég yndi samt hjá þér.

Ég græt þig ei. – Hún Inga mín
sér aldrei tár frá mér. –
En næturvökur, norðurljós
er náðargjöf frá þér
og mánageislar, stjörnustrjál
og stund í september. Sigurður frá Brún

 
Ingi Heiðmar Jónsson
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga