Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 08. nóvember 2022 - kl. 09:21
Hluti starfa verði á Hvammstanga

Byggðarráð Húnaþings vestra lýsir yfir stuðningi við tillögu sem fyrir liggur um flutning verkefna Innheimtustofnunar sveitarfélaga til sýslumannsins á Blönduósi en vill að hluti þeirra verði á Hvammstanga. Í umsögn byggðarráðs við frumvarpsdrög um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga sem finna má í Samráðsgátt stjórnvalda segir að á Blönduósi hafi byggst upp mikil þekking og góð reynsla af innheimtumálum sem nýtist vel í innheimtu meðlagsgreiðslna.

Í umsögninni óskar byggðarráð eftir því að hluti þeirra starfa sem kunni að skapast á Norðurlandi vestra við breytinguna verði staðsett á Hvammstanga. Með því mætti leysa skort á þjónustu sýslumanns í Húnaþingi vestra. Húsnæði sé nú þegar fyrir hendi sem nýtt hafi verið fyrir mánaðarlegar heimsóknir fulltrúa sýslumanns og einnig sé glæsilegt skrifstofusetur til staðar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga