Fréttir | 23. nóvember 2022 - kl. 14:13
Skagaströnd með flest stig sveitarfélaga á félagssvæði Kjalar

Tíu bæjarstarfsmannafélög BSRB stóðu í vor fyrir viðhorfskönnuninni „Sveitarfélag ársins.“ Tilgangurinn er m.a. að hvetja stjórnendur sveitarfélaganna til að veita starfsumhverfinu meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf. Stefnt er að því að könnunin verði árlegur viðburður. Alls komust 15 sveitarfélög á lista könnunarinnar og þar á meðal er Skagaströnd, sem fékk flest stig sveitarfélaga á félagssvæði Kjalar stéttarfélags.

Skagaströnd fékk 4,037 í heildareinkunn og lenti í sjöunda sæti á listanum. Meðaltalsstigafjöldi í könnuninni var 3,982.

Könnunin náði til níu þátta sem eru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægja og stolt og jafnfrétti. Könnunin var gerð í samstarfi við Gallup og er byggð upp með hliðstæðum hætti og útnefningar Fyrirtækis ársins og stofnunar ársins byggja á.

Grímsnes- og Grafningshreppur skoraði hæst
Fullnægjandi svarhlutfall fékkst í fimmtán sveitarfélögum og fékk Grímsnes- og Grafningshreppur flest stig. Þar á eftir kom Hrunamannahreppur, Flóahreppur og Bláskógabyggð.

Þessi fjögur sveitarfélög fengu sæmdarheitið Sveitarfélag ársins 2022.

Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga