Pistlar | 24. nóvember 2022 - kl. 09:19
Alþingi í eina viku
Eftir Högna Elfar Gylfason

Í síðustu viku áskotnaðist undirrituðum sá heiður að taka sæti á Alþingi íslendinga fyrir Miðflokkinn.  Óhætt er að segja að ýmislegt hafi komið á óvart við þingmannsstörfin, en þau eru um margt ólík öðrum störfum sem ég hef tekist á við.  Ásýnd þingsins út á við er að miklu leyti sú að ráðherrar og þingmenn fara í ræðustól í þingsal, halda ræður, setja fram fyrirspurnir eða veita andsvör. Því fer þó fjarri að það gefi fulla mynd af störfum þingmanna. Mikill tími fer í lestur, skrif og nánari skoðun mála sem koma fyrir þingið.  Nefndafundir eru svo flesta daga í nefndum þingsins þar sem mál til afgreiðslu eru krufin til mergjar, breytingatillögur gerðar og stundum tekið á móti gestum af ýmsum toga til að fá sem flest sjónarmið upp á yfirborðið. Þá er eflaust margt annað ótalið sem undirritaður fékk ekki reynslu af í þetta skiptið s.s. ferðir og fundahöld út í bæ og út um landið ásamt ferðum erlendis til skrafs og ráðagerða við samstarfsaðila í ýmsum málum. Niðurstaðan er þó þessi að greinilegt er að þingmenn sem vilja sinna starfinu vel þurfa að halda vel á spöðunum og skipuleggja tíma sinn vel ef þeir eiga að komast yfir verkefnin.

Á þessum stutta tíma mínum á Alþingi langaði mig að nota hluta tímans til að fá svör við ýmsu sem brunnið hefur á mér og fleirum. Því lagði ég fram sex skriflegar  fyrirspurnir til ýmissa ráðherra í mismörgum liðum.  Þá spurði ég annarsvegar forsætisráðherra og hinsvegar innviðaráðherra spurninga í þingsal undir liðnum “Óundirbúnar fyrirspurnir” og hélt tvær stuttar ræður í þingsal. Að endingu lagði ég fram eina þingsályktunartillögu í samstarfi við Sigmund Davíð Gunnlaugsson.

Hér fyrir neðan geri ég grein fyrir því sem ég lagði fram í þinginu, ýmist í texta eða með tilvísunum á vef alþingis.

Högni Elfar Gylfason
Varaþingmaður Miðflokksins í NV-kjördæmi.

Fyrirspurnir til ráðherra.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

1. Hversu margir sveitabæir í ábúð hafa ekki farsímasamband?

2. Hversu margir sumarbústaðir hafa ekki farsímasamband?

3. Er til áætlun um að ljúka farsímavæðingu þessara staða? Ef svo er, hvenær eru áætluð verklok?

Matvælaráðherra:

  1. Mun ráðherra beita sér fyrir eflingu sauðfjárræktar í landinu og koma þannig í veg fyrir fyrirsjáanlegan skort á lambakjöti og frekara byggðahrun en þegar er orðið?
  2. Hvaða útreikninga styðst íslenska ríkið við varðandi kolefnisspor landbúnaðar í kolefnisbókhaldi Íslands?
  3. Hvaða íslenskar rannsóknir hafa verið gerðar á losun kolefnis vegna framleiðslu kindakjöts?
  4. Hvernig er losun kolefnis reiknuð á hvert kíló framleidds kindakjöts á Íslandi?

Utanríkisráðherra:

  1. Er samstarf milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins vegna misræmis á útflutningstölum ESB og Íslands og þá einkum í tengslum við samningaviðræður Íslands og ESB um endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB sem nú standa yfir?
  2. Liggur fyrir viðræðuáætlun við ESB um endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB?

Fjármála- og efnahagsráðherra:

  1. Er samstarf milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins vegna misræmis á útflutningstölum ESB og Íslands og þá einkum í tengslum við samningaviðræður Íslands og ESB um endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB sem nú standa yfir?

Fjármála- og efnahagsráðherra:

  1. Hverjir eiga sæti í starfshópi sem ráðherra skipaði í febrúar 2021 til að greina misræmi milli magns í útflutningstölum úr viðskiptagagnagrunni Evrópusambandsins og innflutningstölum Hagstofu Íslands í sömu tollflokkum, sbr. kafla 4.2.1 í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá febrúar sl. um tollframkvæmd vegna landbúnaðarafurða?
  2. Hve marga fundi hefur starfshópurinn haldið og hvenær fundaði hann síðast?
  3. Færir starfshópurinn fundargerðir sem verða gerðar aðgengilegar?
  4. Hefur starfshópurinn fundið haldbærar skýringar á því misræmi að árið 2021 voru flutt út frá ESB til Íslands (samkvæmt tölum Eurostat) 1.014 tonn af unnum kjötvörum (tollflokkur 1602) en inn til Íslands komu 462 tonn samkvæmt Hagstofu Íslands og á sama tíma voru flutt út frá ESB 202 tonn af mjólkur- og undanrennudufti til Íslands en samkvæmt skýrslum Hagstofu Íslands nam innflutningur 31 tonni?
  5. Hvenær mun starfshópurinn ljúka störfum?
  6. Hefur ráðuneytið nú þegar ráðist í úrbætur varðandi tollframkvæmd, sbr. ábendingar í fyrrnefndri skýrslu Ríkisendurskoðunar, og hverjar eru þær þá helstar?

Forsætisráðherra:

  1. Hversu margar stofnanir ríkisins hafa úrskurðarvald í málefnum almennings og fyrirtækja án þess að hægt sé að áfrýja úrskurði til æðra stjórnsýslustigs eða ráðherra? Hverjar eru þessar stofnanir?
  2. Telur ráðherra eðlilegt að ókjörnir embættismenn ríkisstofnana hafi slíkt vald?
  3. Mun ráðherra beita sér fyrir því að fólk og fyrirtæki sem sæta þurfa slíkum stjórnvaldsákvörðunum embættismanna stofnana ríkisins fái gjafsókn fyrir dómstólum?

Fyrri ræða undir liðnum “Störf þingsins”:

https://www.althingi.is/altext/raeda/153/rad20221115T141317.html

Seinni ræða undir liðnum “Störf þingsins”:

https://www.althingi.is/altext/raeda/153/rad20221117T104238.html

Óundirbúin fyrirspurn til Forsætisráðherra:

https://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20221114T153901

Óundirbúin fyrirspurn til Innviðaráðherra:

https://www.althingi.is/altext/upptokur/lidur/?lidur=lid20221116T153038

Tillaga til þingsályktunar um hringtengingu vega í Skagafirði.

Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að láta Vegagerðina gera áætlun um tengingu Skagafjarðarvegar, nr. 752, við þjóðveg nr. 1 með gerð vegar og brúar yfir Héraðsvötn hjá Flatatungu í Skagafirði.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga