Guðrún Rut, Una Ósk og Arnar Freyr sem tók á móti verðlaunum fyrir Kristján Þorbjörnsson
Guðrún Rut, Una Ósk og Arnar Freyr sem tók á móti verðlaunum fyrir Kristján Þorbjörnsson
Fréttir | 24. nóvember 2022 - kl. 10:02
Uppskeruhátíð búgreinafélaganna og Hestamannafélagsins Neista
Frá Hestamannafélaginu Neista

Glæsilegi uppskeruhátíð búgreinafélaganna og hestamannafélagsins Neista var haldin 19. nóvember. Þar voru knapar ársins og sjálfboðaliði ársins verðlaunaðir. Knapi ársins 2022 í fullorðinsflokki hjá Hestamannafélaginu Neista er Guðrún Rut Hreiðarsdóttir. Guðrún Rut gerði það gott á árinu, tók þátt í vetrarmótaröð Skagfirðings og félagsmóti og úrtöku Neista og Snarfara í vor.

Á vetrarmótaröð Skagfirðings fór hún með Kristal og Skjá. Á félagsmóti og úrtöku Neista og Snarfara mætti Guðrún Rut með Kristal, Skjá, Rebekku og Sál. Öll þessi hross eru frá Skagaströnd. Glæsileg pör þar á fer og stóðu þau sig öll með prýði á þessum mótum. Þess má líka geta að Guðrún Rut hefur kennt hjá okkur á námskeiðum í nokkur ár. Frábær kennari. Innilega til hamingju!

Knapi ársins 2022 í yngri flokkum hjá Hestamannafélaginu Neista er Una Ósk Guðmundsdóttir. Una átti frábært ár, tók þátt í Gæðingakvöldmóti Skagfirðings, Vetrarmótaröð Skagfirðings, WR Hólamóti UMSS og Skagfirðings, Félagsmóti og úrtöku Neista og Snarfara og Landsmóti hestamanna. Una fór á Landsmót hestamanna fyrir hönd félagsins með Snældu frá Húsavík og stóðu þær sig frábærlega vel. Glæsilega gert, innilega til hamingju!

Sjálfboðaliði ársins hjá hestamannafélaginu Neista er Kristján Þorbjörnsson. Arnar Freyr tók á móti verðlaununum. Kristján er búinn að vera í reiðveganefnd Neista til fjölda ára, hann er einnig í samgöngunefnd Landsambands hestamanna sem kemur saman einu sinni á ári og fer yfir reiðvegamál hestamannafélaga.

Þeir eru ófáir reiðvegirnir sem Kristján er búinn að leggja hér í héraði, með hjálp annarra auðvitað, en það liggur mikil vinna að koma þessum vegum í framkvæmd. Hann kom einnig upp hrossaáningagerði hjá Sveinsstöðum 2019, sótti um styrk í framkvæmdasjóð ferðamannastaða til að setja upp áningagerði, sem hann fékk. Í sumar fór mikil vinna í að fá reiðveg meðfram nýja Skagastrandarveginum samþykktan. Hann á mikið hrós skilið fyrir að leggja alla þessa vinnu fram til að við hin getum riðið hér um héruð. Spurning hvort hann vilji ekki taka okkur í hópreið um þessa vegi sem hann hefur haft í hönd með að koma í framkvæmd. Innilega til hamingju og bestu þakkir fyrir!

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga