Frá fundinum í Reykjavík
Frá fundinum í Reykjavík
Pétur kynnir hugarflugsvinnuna
Pétur kynnir hugarflugsvinnuna
Hugmyndir kynntar
Hugmyndir kynntar
Fréttir | 24. nóvember 2022 - kl. 16:08
Um 110 manns sóttu hugmyndafundi vegna deiliskipulags í gamla bænum

Í gærkvöldi fór fram í Reykjavík hugmyndafundur vegna deiliskipulags í gamla bænum á Blönduósi. Sambærilegur fundur fór fram í Félagsheimilinu á Blönduósi á þriðjudagskvöld. Fundirnir byrjuðu á því að Pétur Arason sveitarstjóri kynnti sjónarmið sveitarfélagsins gagnvart verkefninu og því næst kynnti Bjarni Gaukur Sigurðsson hugmyndir og áform InfoCapital um uppbyggingu í gamlabænum en félagið hefur keypt nokkrar eignir á svæðinu. Um 110 manns sóttu fundina, um 55-60 á Blönduósi og um 50 í Reykjavík.

Að loknum kynningum fór fram hugarflugsvinna fundargesta um möguleika svæðisins. Fór hún þannig fram að hver og einn fundargestur skrifaði hugmyndir sínar í hljóði á gula miða og að því loknu voru þær ræddar í hópum. Hver hópur setti svo tillögurnar saman á eitt stórt blað og kynnti fyrir öðrum hópum og fundargestum. Margir tugir ef ekki hundruð tillagna komu fram á fundunum.

Nýbyggingar ekki velkomnar
Í kynningu Péturs kom fram að fundirnir væru mikilvægur hluti af undirbúningi deiliskipulags gamla bæjarhlutans á Blönduósi. Sagði hann að það væri gríðarlega mikilvægt fyrir framtíðaruppbyggingu svæðisins ef hægt væri að festa deiliskipulag í sessi sem samstaða gæti ríkt um. Pétur tók það fram að það væri ekki víst að það næðist fullkomin samstaða en að fundir sem þessir væru ein af leiðunum til að tryggja að allar raddir heyrðust áður en ákvarðanir yrðu teknar.

Þá sagði Pétur að ólíkt einkaframtakinu þyrfti sveitarfélag að hugsa mjög langt fram í tímann og að það væri ekki vegna framtakssemi sem svæðið væri eins og það er heldur vegna þess að það hafi verið afskipt. Í því fælist gæfa svæðisins og tækifærið sem sveitarfélagið vilji nýta núna. „Verndun er og verður því lykillinn að velgengi svæðisins og það er skylda sveitarfélagsins að standa vörðum þessi ómetanlegu verðmæti,“ sagði Pétur og bætti við að verndum væri ekki slæmt orð og alls ekki hindrun við uppbyggingu. „Þvert á móti gefur hún okkur ákveðnar leikreglur sem á að vera auðvelt að fara eftir.“

Pétur tók það sérstaklega fram að ætlunin væri ekki að byggja nýbyggingar á svæðinu en ef ný hús yrðu byggð þá væru það hús sem hafa áður staðið í gamla bænum en verið rifin. Nefndi hann hús eins og Kistuna, Gústasjoppu, Sýslumannshúsið, Verslun Magnúsar Stefánssonar og Blöndu. Þá væri Klifamýrin einnig ómetanleg menningarverðmæti. „Sveitarfélagið verður að vera virkur þátttakandi í uppbyggingu svæðisins og rekstri þess. Við sjáum fyrir okkur ákveðna tegund af ferðamennsku sem er ekki það sem kallað er massatúrismi,“ sagði Pétur að lokum og nefndi að sveitarfélagið vilji sjá blöndu af upplifun, menningu, sögu og matarlist í gamla bænum.

Langfæst hótelherbergi á Norðurlandi vestra
InfoCapital er fjárfestingarfélag sem stofnað var árið 2009 af Reyni Finndal Grétarssyni en meðeigendur hans eru Bjarni Gaukur Sigurðsson og Hákon Stefánsson. Helstu fjárfestingar félagsins eru á sviði fjártækni, fjarskipta, heilbrigðistækni og ferðaþjónustu. „Við fjárfestum í fólki og framtíðinni,“ sagði Bjarni Gaukur í kynningu sinni á fundunum. Sýndi hann stöplarit af þróun fjölda hótelherbergja eftir landshlutum frá árinu 2015 og kom fram á því að hótelherbergi eru það fá á Norðurlandi vestra að tölurnar komu ekki einu sinni fram á myndinni. Til samanburðar þá eru 5.275 hótelherbergi á höfuðborgarsvæðinu, 2.389 á Suðurlandi og 1.031 á Suðurnesjum. Á Norðurlandi eystra eru þau 961 og á Norðurlandi vestra eru þau aðeins 235.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga