Fréttir | 30. nóvember 2022 - kl. 16:48
Uppskeruhátíð hestafólks í Húnaþingi vestra

Uppskeruhátíð Þyts og Hrossaræktarsamtaka Vestur-Húnavatnssýslu var haldin um síðustu helgi þar sem verðlaun og viðurkenningar voru veittar fyrir góðan árangur á árinu sem er að líða. Lækjamót var valið ræktunarbú ársins og Helga Una Björnsdóttir knapi ársins í 1. flokki. Þorgeir Jóhannesson var valinn knapi ársins í 2. flokki, Eysteinn Tjörvi Kristinsson í ungmennaflokki og Guðmar Hólm Ísólfssson Líndal í unglingaflokki. Í barnaflokki urðu jafnar Herdís Erla Elvarsdóttir og Avanna Manúela Alves.

Fram kom á hátíðinni að 27 hross af svæðinu hafi verið sýnd í fullnaðardóm á árinu og að 13 bú hafi farið með hross í dóm. Hæst dæmda hryssan eftir aldursleiðréttingu var Þrá frá Lækjamóti, fjögurra vetra hryssa ræktuð af Elínu Rannveigu Líndal og Þóri Ísólfssyni. Hæst dæmdi stóðhesturinn eftir aldursleiðréttingu var Sindri frá Lækjamóti, sex vetra, ræktaður af Guðmari Hólm Ísólfssyni Líndal.

Ný verðlaun á hátíðinni voru að veita hæst dæmda hrossi með 5 fyrir skeið viðurkenningu en það var Hátíð frá Efri-Fitjum, ræktandi Tryggvi Björnsson og Miðsitja ehf.

Sjá má nánari umfjöllun á vef Þyts.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga