Frá Skagastrandarhöfn
Frá Skagastrandarhöfn
Fréttir | 03. janúar 2023 - kl. 16:47
Byggðakvóta 2022-2023 úthlutað

Matvælaráðuneytið hefur ákveðið úthlutun á almennum byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2022-2023. Úthlutað er til 51 byggðarlags í 29 sveitarfélögum. Heildarúthlutun eykst um 262 tonn milli ára og verða því breytingar á magni úthlutaðra þorskígildistonna til einstakra byggðalaga. Byggðalög með færri en 400 íbúa fá 3.271 þorskígildistonnum úthlutað, byggðalög með fleiri en 400 íbúa fá 1.629 þorskígildistonnum úthlutað. Alls fá 14 byggðalög lágmarksúthlutun og fjögur byggðalög fá hámarksúthlutun.

Úthlutunin byggir á reglugerð nr. 1018/2022 um úthlutun byggðakvóta til byggðalaga á fiskveiðiárinu 2022/2023. Einnig er stuðst við upplýsingar frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks auk samdráttar í rækju- og skelvinnslu.

Vestfirðir er sá landshluti sem fær mest úthlutað eða 1.856 tonn. Þar á eftir kemur Norðurland eystra sem fær 1.086 tonn, Austurland fær 863 tonn, Norðurland vestra 460 tonn, Vesturland 267 tonn, Suðurland 196 tonn og Suðurnes 172 tonn.

Af einstökum sveitarfélögum í Húnavatnssýslum er úthlutað til Húnaþings vestra 130 tonnum (sem er aukning um 60 tonn), Blönduós fær 15 tonn (stendur í stað) og Skagaströnd 170 tonn (aukning um 16 tonn).

Nánari sundurliðun á úthlutun byggðakvóta til einstakra byggðalaga 2022-2023 má sjá hér.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga