Fréttir | 19. janúar 2023 - kl. 11:49
Byggðasamlögum slitið

Sveitarfélagið Skagaströnd vill verða leiðandi sveitarfélag í rekstri Tónlistarskóla Austur-Húnvetninga, náist samkomulag um það. Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar Skagastrandar frá því í gær. Til umræðu var erindi Húnabyggðar um vilja sveitarfélagsins til þess að slíta samstarfsverkefnum sem rekin eru í byggðasamlögum eins og um félags- og skólaþjónustu, tónlistarskóla og menningar- og atvinnumál.

Í fundargerðinni kemur fram að slitameðferð Byggðasamlags um menningar- og atvinnumál sé hafin og að sveitarstjórn Skagastrandar samþykki slit á Félags- og Skólaþjónustu A-Hún. í samræmi við ákvæði laga. Miða skuli við tveggja ára tímaramma laganna nema ásættanleg lausn finnist á skemmri tíma og þjónustunni verði komið í annan farveg án óásættanlegs kostnaðarauka eða skerðingar á þjónustu við íbúa. Þá lýsti sveitarstjórn vilja til þess að verða leiðandi sveitarfélag í rekstri Tónlistarskóla Austur-Húnvetninga, náist samkomulag um það, eins og áður sagði.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga