Fjöldi útgefinna veðurviðvaranna eftir árum. Mynd: vedur.is
Fjöldi útgefinna veðurviðvaranna eftir árum. Mynd: vedur.is
Fréttir | 01. febrúar 2023 - kl. 14:44
Metfjöldi appelsínugulra og rauðra veðurviðvarana í fyrra
Gul veðurviðvörun um allt land á morgun

Alls voru 456 viðvaranir gefnar út frá Veðurstofu Íslands á síðasta ári. Gular viðvaranir voru 372 talsins, appelsínugular 74 og rauðar viðvaranir voru 10. Frá því að nýtt viðvörunarkerfi var tekið í notkun á Veðurstofu Íslands í nóvember 2017 hafa aldrei verið gefnar út jafn margar appelsínugular og rauðar viðvaranir á einu ári. Sagt er frá þessu á vef Veðurstofunnar.

Viðvaranirnar dreifðust misjafnlega á milli spásvæða. Flestar viðvaranir voru gefnar út á Suðurlandi og Suðausturlandi, en fæstar á Austurlandi að Glettingi. Rauðu viðvaranirnar dreifðust á sjö spásvæði. Þann 7. febrúar 2022 voru í gildi rauðar viðvaranir fyrir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa og á Suðurland vegna hríðarveðurs. 21. febrúar 2022 voru í gildi rauðar viðvaranir á sömu spásvæðum vegna vinds. Rauð viðvörun vegna vinds var í gildi fyrir Austfirði 25. september 2022, en 9. október voru rauðar viðvaranir í gildi fyrir Norðurland eystra og Austurland að Glettingi vegna hríðar, en á Suðausturlandi vegna vinds.

Og talandi um veðurviðvaranir, þá hefur Veðurstofan gefið út gula veðurviðvörun um allt land á morgun fimmtudag. Á Norðurlandi vestra tekur hún gildi klukkan 10 í fyrramálið og gildir til miðnættis annað kvöld. Spáð er austan 18-30 m/s og snörpum vindhviðum við fjöll, snjókomu eða slyddu þannig að búast má við lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum. 

Sjá nánar á www.vedur.is

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga