Þorleifur Karl oddviti stingur í samband. Mynd: hunathing.is
Þorleifur Karl oddviti stingur í samband. Mynd: hunathing.is
Fréttir | 18. mars 2023 - kl. 09:45
Hverfahleðslustöðvar teknar í notkun á Hvammstanga

Fyrstu hverfahleðslustöðvarnar hafa verið teknar í notkun á Hvammstanga. Þær voru settar upp í samstarfi við Orku náttúrunnar með styrk frá Orkusjóði. Tengill ehf. annaðist uppsetningu. Stöðvarnar eru staðsettar við neðra bílaplan Félagsheimilisins á Hvammstanga og við norðurhlið íþróttamiðstöðvar, fjórar stöðvar á hverjum stað. Þorleifur Karl Eggertsson oddviti sveitarstjórnar og Haraldur Sigfús Magnússon sérfræðingur á markaðssviði ON voru fyrstir til að stinga í samband við Félagsheimilið. Sagt er frá þessu á vef Húnaþings vestra.

Hverfahleðslur ON eru settar upp í alfaraleið fyrir rafbílaeigendur. Þær gefa fólki kost á að hlaða við sundlaugar, menningarhús, íþróttamiðstöðvar, skóla og leikskóla. Hleðslustöðvarnar eru einnig hentugar fyrir fólk sem vill hlaða bílinn í sínu hverfi og eiga ekki kost á að hlaða heima við. Nánari upplýsingar um stöðvarnar og hvernig þær virka eru að finna á heimasíðu ON. Þar má sækja app eða panta ON lykil til að nýta stöðvarnar. Slíkir lyklar eru einnig til afhendingar í Ráðhúsi Húnaþings vestra.

„Uppbygging innviða er órofa þáttur í orkuskiptunum. Það er von okkar að þetta fyrsta skref sveitarfélagsins í þeirri innviðauppbyggingu nýtist bæði íbúum og gestum okkar vel. Við færum Orkusjóði jafnframt kærar þakkir fyrir styrkinn til verkefnisins ásamt þeim verktökum sem komu að uppsetningunni,“ segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir á vef Húnaþings vestra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga