Fréttir | 20. mars 2023 - kl. 18:22
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendir bréf til fjögurra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Sveitarfélagið Skagaströnd, Húnabyggð og Húnaþing vestra mega eiga von á bréfi frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga á næstunni. Átján önnur sveitarfélög fá sambærilegt bréf og þar á meðal er Sveitarfélagið Skagafjörður. Sagt er frá þessu á vef Fréttablaðsins. Í skriflegu svari nefndarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins kemur fram að fjárhagsstaða sveitarfélaganna sé æði misjöfn.

Í sumum tilvikum sé um lítilsháttar frávik frá fjárhagsviðmiðum að ræða á meðan fjárhagsvandi annarra sé alvarlegri. Varhugavert geti því verið að draga of víðtækar ályktanir um fjárhagsvanda allra þeirra sveitarfélaga sem hafi fengið bréf að þessu sinni.

Samkvæmt nefndinni er róðurinn þyngstur í þeim sveitarfélögum þar sem reksturinn er undir þremur eða fleiri lágmarksviðmiðum um skuldastöðu og heilbrigðan rekstur. Sveitarfélögin sem um ræðir eru: Árborg, Reykjavík, Seltjarnarnes, Skagaströnd, Tálknafjörður og Húnaþing vestra.

Hin sveitarfélögin fimmtán sem fengu bréf frá eftirlitsnefndinni að þessu sinni eru: Grundarfjörður, Húnabyggð, Hveragerði, Múlaþing, Norðurþing, Skagafjörður, Vogar, Vesturbyggð, Akranes, Akureyri, Dalabyggð, Hafnarfjörður, Ísafjarðarbær, Kópavogur og Vopnafjarðarhreppur.

Sjá nánar á vef Fréttablaðsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga