Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 15. júní 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júní 2024
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 11:42 0 0°C
Laxárdalsh. 11:42 0 0°C
Vatnsskarð 11:42 0 0°C
Þverárfjall 11:42 0 0°C
Kjalarnes 11:42 0 0°C
Hafnarfjall 11:42 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
Eftir Guðmund Inga Guðbrandsson
15. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
13. júní 2024
Eftir Ásgerði Pálsdóttur
09. júní 2024
Eftir Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur
05. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júní 2024
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Húnsstaðir. Myndin er úr bókinni Ættir Austur-Húnvetninga, III bindi, bls. 1138.
Húnsstaðir. Myndin er úr bókinni Ættir Austur-Húnvetninga, III bindi, bls. 1138.
Pistlar | 04. júní 2023 - kl. 09:50
Þættir úr sögu sveitar: Jón á Húnsstöðum
50. þáttur. Eftir Jón Torfason

Í minni æsku voru tveir Jónar á Húnsstöðum, sá eldri Jón Benediktsson (21. maí 1881-14. desember 1977) náði háum aldri og sá yngri Jón Benedikt Björnsson (f. 20. mars 1947), dóttursonur gamla Jóns, á vonandi eftir að gera það líka. Sá er munur á þessum langfeðgum að Jón eldri var kallaður „á Húnsstöðum“ en Jón yngri er „frá Húnsstöðum“ því hann flutti þaðan að afliðnum unglingsárunum. En fyrr á tíð bjuggu aðrir Jónar á þessari jörð, óskyldir fyrrnefndum nöfnum eða a.m.k. lítið skyldir svo ég viti.

Jón Gíslason (1745-3. desember 1807) mun hafa komið að Torfalæk um eða upp úr 1780, annað hvort sem vinnumaður eða húsmaður. Þar var á fleti fyrir gjafvaxta mær, Steinunn (f. 1759) dóttir Þórðar Helgasonar og Ástu Pálsdóttur, og hefur þetta fólk allt verið nefnt áður. Sennilega hafa þau gifst fljótlega þótt þau eignuðust ekki sitt fyrsta barn fyrr en 1. október 1789, dreng og fundu ekkert nafn nærtækara á hann en Jón. Sá varð ekki langlífur, lést rúmlega ársgamall úr „andarstemmuhósta.“ Þau eignuðust annan Jón fáum árum síðar (f. 22. september 1793) og varð hann einn af Jónunum sem bjuggu á Húnsstöðum og kemur að honum síðar.

Ætla mætti að framtíðin hafi verið allbjört í huga nýja parsins, Jóns og Steinunnar, vorið 1783. Jón telur fram til skatts og tíundar það ár á Torfalæk og virðist líklegur til að komast í góðra bænda röð. En 8. júní byrjaði gosið í Lakagígum með eftirfylgjandi öskufalli og þá hurfu framtíðaráætlanir flestra meira og minna í eiturmóðu. Þau Jón og Steinunn eru eitt ár í Sólheimum í Svínavatnshreppi, koma svo aftur að Torfalæk en færa sig að Hæli vorið 1786 og eru þar til 1790 að þau flytja loksins að Húnsstöðum. Í þætti nr. 47 (Dánarbússkipti á Hæli) var gerð nokkur grein fyrir þeim flutningum og tengslum þess fólks sem í hlut átti.

Til er búnaðarskýrsla frá 1787 og eru þá verstu ár móðueldanna að baki. Þá eru þau Steinunn og Jón enn á Hæli og telja fram 2 kýr og 13 ær, en 18 kindur alls, og 1 hest. Tekið er fram að til eldiviðar brúkist hrís og torf, þ.e. mór. Loks er búið að hlaða 16 faðma af túngörðum í samræmi við umbótatilskipanir yfirvalda.

Árið eftir er kýrin að vísu bara ein en tvær kvígur kálffullar. Ærnar eru orðnar 16 mjólkandi og kindur samtals 25. Hestarnir eru 3.

Loks er til skýrsla frá 1790 og þá eru þau komin að Húnsstöðum. Kýrnar eru 2 og kvíga kálffull. Mylkar ær teljast 18 og sauðfé samtals 30. Hestar eru 3 eins og síðast. Hér hafa verið hlaðnir túngarðar að lengd 48 faðmar en mest af því hefur verið gert í tíð fyrri ábúanda.

Nú byrjar hin mikla vöntun á búnaðarskýrslum úr sýslunni þannig að myndast nærri hálfrar aldar gap. Þó er til skýrsla frá 1803 og þá eru heimilismenn á Húnsstöðum 8 talsins, kýrnar tvær og ein kvíga. Mylkar ær eru 28, lömbin 10 og 3 gemlingar að auki þannig að kindurnar eru 38 samanlagt. Tamdir hestar og merar eru 4 en tvennt ótamið.

Þegar litið er til tíundarskýrslna er lausafjártíund Jóns og Steinunnar 7-8 hundruð, hækkar smám saman í 9 og kemst í 13 hundruð árið 1800 en lækkar aftur niður í 6 og 7 hundruð í harðindunum í byrjun 19. aldar og er svo til æviloka Jóns Gíslasonar 1807. Steinunn er talin fyrir búinu næstu tvö ár eftir lát hans og tíundar 8 hundruð. Þegar þetta er borið saman við aðra bændur í hreppnum eru jafnan 3-4 bændur með verulega hærri tíund en Jón og Steinunn,  10-12 eru talsvert lægri og 6-7 virðast svipað staddir og þau. Rétt er að nefna að Ragnhildur Vigfúsdóttir, hálfsystir Steinunnar sem gerðist húskona á Húnsstöðum eftir lát manns síns, Illuga Björnssonar, tíundar jafnan 1 hundrað sem má túlka svo að hún hafi haft 6 kindur á sínum vegum.

Ekki eru til lýsingar á húsakynnum á Húnsstöðum frá tíð Jóns Gíslasonar en 1776 voru jarðir Þingeyraklausturs teknar út í sambandi við búskipti eftir Bjarna Halldórsson sýslumann. Húsakynnin eru heldur óvegleg miðað við okkar tíma, t.d. baðstofan aðeins röskir 4 metrar á lengd[1] og eldhúsið 1 stafgólf, þ.e. innan við 2 metrar á kant og þar hafa verið hlóðir og einhver eldiviður sem hefur tekið talsvert af plássinu. Önnur bæjarhús eru líka lítil og þröng og virðast hlutfallslega rýmilegri fyrir búféð en mannfólkið. Þannig er pláss fyrir 5 nautgripi í fjósinu og upp á vellinum fjárhús fyrir 20 sauðkindur. En það má telja óvanalegt, miðað við aðrar úttektir frá þessum tíma,  að húsin eru vel byggð. Veggir að vísu sumir gamlir en stæðilegir, upprefti ekki sagt nýtt en sárasjaldan fúið og stundum nýlegt.

         1. Baðstofa, 2 1/2 stafgólf.[2] Er með 6 stöfum, syllum, þremur bitum, fjórum dvergum undir auknum hliðásum, þremur vöglum og aukinni mænitróðu. Upprefti af gömlum grenivið. Hurðu á járnum, tveimur dyrastöfum, samt þverfjölum yfir dyrum. Veggir eru umhverfis gamlir, þó stæðilegir. Álag ekkert.

         2. Búrhús, 2 stafgólf. Er með fjórum stoðum, tveimur bitum, vegglægjum til hliða, fjórum dvergum undir hliðásum ─ öðrum þeirra auknum ─ 5 vöglum og aukinni mænitróðu. Upprefti af greni nýlegu. Fyrir dyrum er hurð á járnum með hespu og keng og tveir dyrastafir en yfir dyrum 2 þvertré. Veggir umhverfis vel standandi. Álag ekkert.

         3. Skáli, 2 stafgólf. Er með 2 stoðum, einum bita, tveimur dvergum undir hliðásapörtum, tveimur vöglum og aukinni mænitróðu. Upprefti af nýlegum grenivið. Fyrir dyrum er hurð á járnum með hespu og keng og tveir dyrastafir en yfir dyrum 2 þverfjalir. Álag ekkert þar veggir umhverfis eru og vel standandi.

         4. Eldhús, eitt stafgólf. Er með einum bita, tveimur dvergum undir einlægum hliðásum, 2 vöglum og dvergum undir einlægum mæniás. Upprefti af greni vænlegu. Yfir dyrum eru tvær þverspýtur milli hverra er langreft. Veggir eru hér gamlir, þó vel stæðilegir. Álag ekkert.

         5. Göng frá baðstofu til andyra. Eru með fjórum þvertrjám, gömlu og fúnu upprefti af greni. Veggjum gömlum og nokkuð gröfnum, þó stæðilegum.

         Andyr með bæjardyrum. Eru með 6 stöfum undir syllum, tveimur bitum, tvennum sperrum og mænitróðu. Upprefti af gömlum grenivið. Hurð á járnum með járnloku og einni fjöl til hliðar við hvorn dyrastaf, samt bjórþili yfir. Álag á göngin, sem eru 3 1/2 faðmur á lengd, slúttast 8 álnir.

         6. Fjós fyrir 5 naut. Er með fjórum stoðum, 2 hliðásum, einum vagl og mænitróðu. Upprefti af greni, gömlu og sumstaðar fúnu. Fyrir dyrum eru tveir dyrastafir og laus hurð en yfir eitt þvertré. Veggir gamlir, þó stæðilegir. Álag 5 álnir.

         7. Geymsluhús út á hlaðinu, 2 stafgólf. Er með 6 stöfum undir syllum, þremur bitum, þrennum sperrum, tvennum langböndum hvors vegar og aukinni mænitróðu. Upprefti af gömlum grenivið. Dyr hér eru með fjórum dyrastöfum, syllupörtum hvors vegar, hurð á járnum með hespu og keng og tveimur þvertrjám, samt litlu bjórþili yfir. Veggir gamlir, þó stæðilegir. Álag ekkert.

         8. Hesthús bak við bæinn fyrir 2 hesta. Er með einum bita og dverg undir auknum mæniás. Upprefti af ófúnum grenivið. Fyrir dyrum eru 2 dyrastafir og laus hurð en yfir eitt þvertré. Veggir stæðilegir. Álag ekkert.

         9. Hús fyrir ofan bæinn (sem ábúandinn Árni Pálsson segist láta fyrir hér sér afhent innstæðuhús er staðið hafi upp við vallargarð), 2 stafgólf. Er með einum bita, tveimur dvergum undir auknum hliðásum, einum vagl og dverg undir aukinni mænitróðu. Upprefti af nýlegum grenivið og þremur þverröftum yfir dyrum. Veggir hér vel stæðilegir. Álag ekkert.

         10. Fjárhús upp á vellinum fyrir 20 sauði roskna. Er með fjórum stoðum undir auknum hliðásum, tveimur vöglum. Langreft og þverreft með vel brúkanlegum grenivið. Fyrir dyrum eru tveir dyrastafir en yfir þrír þverraftar. Veggir eru gamlir, þó stæðilegir. Álag ekkert.

Líklegt er að húsakynni hafi verið svipuð þessu á árum Jóns og Steinunnar á Húnsstöðum. Smám saman fylltu þau þennan litla bæ af börnum, Steinunn átti barn að jafnaði annað hvert ár en sum þeirra fóru nánast rakleiðis yfir í sumarlandið. Þegar Jón Gíslason dó 3. desember 1807 áttu þau hjón fimm börn á lífi, og er þá komið að því að skoða dánarbú Jóns. Búið var skrifað upp í júní 1808 og gerðu það Þorsteinn hreppstjóri í Holti og Sveinn Halldórsson á Hnjúkum.[3]

Fyrst er talið drjúgt magn af guðsorðabókum, m.a. Vídalíns húspostilla og er það verðmætasta bókin. Aðeins eitt rit má kallast veraldlegt, sem er hefti af þeim nýju Tíðindum (12 skildingar) og mun þar átt við fræðslurit svonefnds Lærdómslistafélags. Jón hefur átt góð spariföt, með messingshnöppum, metin á 1 rd., 16 sk., og gráa skinnhúfu sem kostaði 1 rd. en síðan eru talin hversdagsföt, flest slitin eða garmar og metin á fáa skildinga.

Steinunn hefur átt flott blátt klæðispils með grænum bryddingum  (metið 3 rd.) og fleira til skarts, m.a. koparbelti og nokkra klúta, tvo bláa og einn rauðleitan.  Einnig eru nefnd barnaföt. Það má ætla að hér séu talin „umframföt“ en spurning hvort ígangsklæði, sem fólk var í hversdags, séu talin með.

Rúmfatnaður virðist ekki mikill en þau eiga nokkrar kistur og kistla til að geyma í annars vegar kornmat og hins vegar fatnað. Búr- og eldhúsáhöld eru á hinn bóginn frekar snautleg; tveir sáir, annar með lélegum gjörðum og á annan vantar botngjörðina, og strokkurinn er gamall og sagður skrifli. Nokkur keröld eru færð til bókar, flest léleg. Bót er í máli að þó sáir og keröld séu léleg voru þau oft að nokkru grafin í jörðu og ef ekki var mikið ruggað við þeim héldu þau vel matnum, sýru og skyri, sem í þeim var geymt. Askar voru sex á bænum, allir lélegir, og nokkrar skálar af tré. Eldsgögnin, þ.e. pottar, virðast hins vegar hafa verið í ágætu lagi.

Síðan eru talin amboð, hrífur og orf, klárur og reipi, einnig smíðatól og er það flest í heldur bágu ástandi. Jón hefur átt hnakk en Steinunn  riðið á þófa sem er þó einn verðmætasti gripurinn í búinu, metinn á 1 rd., 80 sk. Þarna er líka íslenskur vefstaður, sem var staðið við þegar var ofið eins og tíðkast hafði frá landnámsöld. Loks eru meðal eignanna talinn geymslukofi og tvö fjárhús, sem Jón og Steinunn hafa átt en tilheyrðu ekki jörðinni. Fjárhúsin eru að vísu heldur léleg en taka þó samanlagt hátt í 50 fjár þannig að þau hafa haft hús til að hýsa allar sínar kindur.

Samanlagt eru í búinu taldar rúmlega 40 kindur, þar af 28 ær með lömbum, hestarnir eru þrír og nokkur ótamin hross. Kýrin er orðin 16 vetra gömul, aflóga og þríspena og hefur sennilega verið étin veturinn eftir en í stað hennar kemur tvævetur fyrsta kálfs kvíga.

Skuldir voru ekki miklar, helst að nefna útfararkostnaðinn upp á 10 rd., líkkistusmíði 2 rd. og morgungjöf ekkjunnar sem nam 20 rd., en það var séreign Steinunnar.

Gengið var frá skiptunum síðar í sama mánuði og gerði það sýslumaðurinn, Sigurður Snorrason, heima hjá sér á Stóru-Giljá.[4] Skipt er milli Steinunnar og fimm skilgetinna barna hennar sem þá voru á lífi: „Nefnilega A. Jóni 15. B. Guðmundi 14. C. Pétri 13. D. Rósídu 11 og Steinunni 5 ára að aldri.“ Einnig eru viðstaddir svaramenn barnanna, sem eru „föðurbróðir þeirra, bóndinn Sveinn Gíslason á Fjalli í Vindhælisþingsókn, og móðurbróðir, silfursmiður mr. Helgi Þórðarson á Brandsstöðum í Bólstaðarhlíðarhreppi, hvörir án nokkurrar sérdeilislegrar tilhlutunar frá yfirvaldsins síðu mæta.“

Þarna er farið yfir eigurnar en við hafa bæst 8 rd. og 72 sk. í peningum og jörðin Hrafnagil í Skefilsstaðaþingsókn í Skagafirði 10 hundruð að dýrleika, sem er metin á 40 rd. Nú hefur útfararkostnaðurinn lækkað lítillega en líka morgungjöf ekkjunnar, er komin niður í 10 rd. Einnig hefur bæst við skuld til prestsins, séra Halldórs Ámundasonar á Hjaltabakka. Af skiptagjörðinni má ráða að viðhaldi húsa hafi verið ábótavant og þurfi álag sem nemi 40-50 ríkisdölum. Virðist sem jörðin Hrafnagil fari í þá skuld en Steinunn ekkja, sem fram heldur búskap á jörðinni, „fær svoleiðis tækifæri til eftir hendinni að viðrétta hana“ og sjáum við síðar hvernig það hefur gengið.

Eignir búsins að frádregnum skuldum voru 195 rd. og 19 skildingar sem skiptist þannig og verður að hafa í huga að lögum samkvæmt fengu systur hálfan hlut móts við bræður sína:

Ekkjunnar Steinunnar hluti varð 97 rd., 57 ½ sk.
Jóns 15 vetra, lóð 27 rd., 85 sk. 
Guðrúnar, 14 vetra 13 rd., 90 ½ sk.
Péturs, 13 vetra 27 rd., 85 sk.
Rósídu, 11 vetra 13 rd., 90 ½ sk.
Steinunnar, 5 vetra 13 rd., 90 ½ sk.

Allar skuldirnar voru greiddar í „fríðu,“ þ.e. margs konar búsmunum og efnislegum hlutum og sama átti við um arfinn. Börn Steinunnar „áttu“ því ákveðna húsmuni og nokkrar kindur að auki en kýrnar komu í Steinunnar hlut. Þannig „átti“ Jón til dæmis einn pottinn í eldhúsinu og eitt keraldið í búrinu en Pétur hamra tvo, klaufhamar og töng, handexi og smiðjubelg. Öll fengu börnin nokkrar kindur í sinn hlut. Skal það ekki rakið í smáatriðum en til dæmis skoðað hvað Rósída fékk, sem voru gripir að vergildi 13 rd., 90 ½ skildingur:

Síðari partur sálmabókar 36 sk.; skrínugarmur 12 sk.                             48
Þrjár hálftunnur 30 sk.; grár poki og tveir stærri úr ull 24 sk.                   54
Þófadýna 10 sk.; 2 ær á 15 mk., = 5 rd.[5]                             5          10
Ein ær lamblaus 1 rd., 64 sk.; rauður færleikur 4 rd., 48 sk.         6          16
Hjá systur sinni, Steinunni                                                                   90½
Í peningum                                                                             ____      61

         Gjörir hennar rétta hluta                                              13        90½

Þessir gripir allir voru áfram notaðir við búreksturinn en gera má ráð fyrir að börnin hafi fengið afraksturinn af kindunum í sinn hlut, þótt maður sé stundum dálítið efins um það þrátt fyrir eftirfarandi varnagla sem settur er í lok skiptagjörðarinnar:

         Ber ekkjunni ásamt svaramanni eða lögverja að standa fyrir öllu eftir þessum skiptum útlögðu skulda útsvari til hlutaðeigenda og annast að dráttur ekki verði þar á, að ekki umkvörtun þar yfir gjörast þurfi áhrærandi fjárvarðveislu barna hennar framvegis, því jafnvel þó arfur þeirra ekki geti álitist utan eyðslufé, nema máske Jóns, að því leyti sem hann kynni dvöl fá án þess að gefa með sér, er móðurinni, ásamt með tveimur fyrstnefndum frændum barnanna, á hendur falið að hafa alla mögulega umsorgun fyrir þessara sinna barna arfs varðveislu á meðan hún hann, eins og nú er, undir höndum hefur óútsvaraðan eður óútgreiddum og gæti að hann ei eyðist úti[6] eftir tiltölu fyrir fóstur þeirra og uppeldi.

Orðfæri Sigurðar Snorrasonar sýslumanns er stundum nokkuð þvælulegt en hér er átt við að Steinunni beri að ala börn sín upp af sínum eignum eða eignum búsins, en ekki láta eigur barnanna renna til uppeldis þeirra. Ef hins vegar barn missti báða foreldra sína og fékk einhvern arf eftir þá var arfshluti þeirra látinn ganga til að greiða fyrir uppfóstur þeirra meðan til vannst.

Steinunn á Húnsstöðum fékk nú til sín ráðsmann, Jón Finnsson  (1760-5. nóvember 1821), giftist honum og bjó svo áfram á Húnsstöðum eftir lát hans. Segir nánar frá þeim og börnum Steinunnar í næsta þætti.

Dánarbú Jóns Gíslasonar 1807.


[1] Stafgólf taldist um 3 álnir sem er nálægt 1,80 m og 2 ½ sinnum það gerir um 4 lengdarmetra.
[2] ÞÍ. Þingeyraklaustursumboð VII/1. Úttektir 1776.
[3] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/1. Skiptaskjöl 1804-1812.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/1. Skiptabók 1807-1810.
[5] Ein mörk (mk.) var 16 skildingar en 96 skildinga í 1 ríkisdal, þannig að 6 merkur gerðu einn ríkisdal.
[6] Óljóst.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið