Valur Freyr Halldórsson. Mynd: hunathing.is
Valur Freyr Halldórsson. Mynd: hunathing.is
Fréttir | 14. september 2023 - kl. 07:14
Nýr slökkviliðsstjóri tekinn til starfa í Húnaþingi vestra

Valur Freyr Halldórsson hefur tekið við starfi slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Húnaþings vestra. Valur hefur víðtæka reynslu af störfum sem slökkviliðsmaður og bráðaliði. Hann hefur lokið námi frá Sjúkraflutningaskólanum og Brunamálaskólanum og hefur löggildingu til að starfa sem sjúkraflutningamaður og slökkviliðsmaður. Auk þess hefur Valur lokið BS námi í hjúkrunarfræði og hefur löggildingu til að starfa sem hjúkrunarfræðingur. Sagt er frá þessu á vef Húnaþings vestra.

Valur hefur jafnframt hann lokið bráðatækninámi frá National Medical Education and Training Center í Boston og hefur löggildingu til að starfa sem bráðatæknir.

Hann starfaði sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður við Slökkvilið Akureyrar á árunum 2002-2022 og var aðstoðarvarðstjóri hluta þess tíma á árunum 2007-2010 og á árinu 2022. Hann starfaði sem hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild á árinu 2016. Frá 2016 til 2022 starfaði hann sem verkefnisstjóri hjá Sjúkraflutningaskólanum í hlutastarfi og frá 2022-2023 sem fag- og verkefnisstjóri skólans í fullu starfi. Hann hefur jafnframt starfað sem leiðbeinandi hjá Rauða krossinum (frá 2005), Sjúkraflutningaskólanum (frá 2006) og hjá Evrópska endurlífgunarráðinu.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga