Fréttir | 17. september 2023 - kl. 09:47
Umhverfisstofnun hefur hafið átak sem snýr að söfnun upplýsinga frá almenningi um menguð svæði á landinu og koma þeim inn á kort. Allir sem hafa grun um mengaðan jarðveg eru hvattir til að senda inn ábendingu. Á vef Umhverfisstofnunar segir að upplýsingar um mengun í jarðvegi séu gríðarlega mikilvægar, til dæmis til að koma í veg fyrir að viðkvæm byggð sé skipulögð á svæði þar sem hætta er á heilsuspillandi mengun.
Nefnd eru dæmi um menguð svæði t.d. þar sem olía hefur lekið í jörð, olía hefur verið grafin í jörð, urðunarstaðir, úrgangur hefur verið brenndur eða grafinn, gamlar bensínstöðvar gamlar smurstöðvar, brennur, geymslur hættulegra efna þar sem líkur eru til að hættuleg efni hafi lekið út, riðugrafir, miltisbrandsgrafir, skotvellir, gamlar spennustöðvar og viðhald og niðurrif skipa.
Þeir sem þess óska geta sent inn nafnlausar ábendingar en ábendingar sem sendar eru inn undir nafni eru betri vinnugögn fyrir eftirlitsstofnanirnar, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Almenningur getur ekki séð nöfn þeirra sem hafa sent inn ábendingar undir nafni.
Sjá nánari upplýsingar á vef Umhverfisstofnunar.