Fréttir | 15. nóvember 2023 - kl. 17:22
Hefja samtal um sameiningu Húnabyggðar og Skagabyggðar

Starfshópur um sameiningarvalkosti Skagabyggðar, sem sveitarstjórn fól oddvita sveitarfélagsins að skipa fyrr ár árinu, hefur skilað niðurstöðu um að hefja eigi samtal við Húnabyggð um mögulega sameiningu sveitarfélaganna. Starfshópurinn var skipaður af foreldrum barna á aldrinum 0-12 ára með lögheimilisfesti í Skagabyggð og tók annað foreldrið, frá fimm heimilum í sveitarfélaginu, þátt í starfshópnum.

Starfshópurinn velti fyrir sér hugsanlegum sameiningarvalkostum en þeir snéru helst að Sveitarfélaginu Skagaströnd og Húnabyggð. Meirihluti starfshópsins komst að þeirri niðurstöðu að hefja ætti samtal við Húnabyggð og hefur sveitarstjórn Skagabyggðar samþykkt þá niðurstöðu og sent erindi til Húnabyggðar.  

Á sveitarstjórnarfundi Húnabyggðar í gær var erindi Skagabyggðar tekið fyrir og samþykkt að skoða mögulega sameiningu sveitarfélaganna. Hefur sveitarstjórn Húnabyggðar falið sveitarstjóra, í samráði við oddvita sveitarstjórnar, að hefja samtal við Skagabyggð um málið.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga