Vatnsdalur
Vatnsdalur
Fréttir | 17. nóvember 2023 - kl. 14:42
Sveitarstjórnir skora á stjórnvöld að leiðrétta kjör bænda

Sveitarstjórn Húnabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu bænda og íslensks landbúnaðar og segir að gríðarlegar kostnaðarhækkanir á aðföngum og íþyngjandi vaxtakostnaður hafi valdið afkomubresti í öllum greinum landbúnaðar. „Húnabyggð er mikið landbúnaðarsvæði og er landbúnaður ein af undirstöðuatvinnugreinum í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn hvetur stjórnvöld til þess að grípa til markvissra aðgerða til að tryggja að skapaðar verði öruggar rekstraraðstæður fyrir bændur til framtíðar,“ segir í bókun sveitarstjórnarfundar 14. nóvember síðastliðinn.

Sveitarstjórn vill jafnframt að stjórnvöld sýni það í verki en ekki eingöngu í orði að tryggja fæðuöryggi sem og að viðhalda byggðastefnu sinni. Fagnar hún ákvörðun Byggðastofnunar um að lækka vexti á landbúnaðarlánum um eitt prósentustig að lækka álag á óverðtryggða vexti lána til kynslóðaskipta í landbúnaði um 1,3 prósentustig. Sveitarstjórn skorar á aðrar lánastofnanir að fylgja þessu fordæmi. Jafnframt vill sveitarstjórn árétta að betur má ef duga skal og hafa Bændasamtök Íslands ítrekað bent á að það vanti um níu til tólf milljarða til íslenskra bænda til að standa undir eðlilegri afkomu, rekstrarlegum skuldbindingum og launum. Vill sveitarstjórn árétta það við stjórnvöld að leiðrétta kjör og stuðla að viðunandi rekstrarumhverfi íslensks landbúnaðar.

Sveitarstjórn Húnaþings vestra hefur einnig lagt fram sambærilega bókun og sveitarstjórn Húnabyggðar.

„Húnaþing vestra býr yfir þeirri miklu gæfu að vera gjöfult landbúnaðarhérað. Hér hefur landbúnaður byggst upp í sátt við land og fólk sem hefur skilað sér í því að héraðið er eitthvert grónasta hérað landsins og vel fallið til matvælaframleiðslu af ýmsu tagi. Þéttbýli og dreifbýli reiðir sig á hvert annað, ungir bændur sjá sér hag í að setjast hér að sem er ótvírætt gæðamerki á það landsvæði sem við búum í. Miklar kostnaðarhækkanir og hátt vaxtastig undanfarin misseri hafa hins vegar haft veruleg áhrif á rekstrarumhverfi flestra búgreina og nú er svo komið að fjölmargir bændur íhuga að bregða búi vegna stöðunnar. Ekki hvað síst á það við um bændur sem hafa nýlega hafið rekstur og eru þar með, eðli málsins samkvæmt, skuldsettari en aðrir.

Stjórnvöld hafa undanfarin misseri farið fögrum orðum um hina nýkrýndu matvæla- og landbúnaðarstefnu ásamt því að hugtakinu fæðuöryggi er flaggað á tyllidögum. Nú verða orðum að fylgja efndir. Stefna í fæðu- og matvælaöryggisstefnum þarf að vera þannig útfærð að bændum sé raunverulega kleift að stunda matvælaframleiðslu.

Sveitarstjórn skorar hér með á stjórnvöld að fylgja eftir eigin landbúnaðarstefnu og sjá til þess að ungir bændur, sem og aðrir bændur, geti skammlaust lifað af sínum búskap eins og almennt er álitið sjálfsagt hjá nágrannaþjóðum okkar.“

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga