Mynd: vedur.is
Mynd: vedur.is
Fréttir | 20. nóvember 2023 - kl. 14:54
Sunnan og suðvestan hvassviðri og él

Veðurstofan hefur gefið út gular veðurviðvaranir fyrir flesta landshluta sem taka munu gildi í kvöld og gilda fram á aðfaranótt miðvikudags. Á Norðurlandi vestra tekur fyrri gula veðurviðvörunin gildi klukkan 21 í kvöld og gildir til hádegis á morgun. Spáð er sunnan hvassviðri eða stormi 18-23 m/s. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, yfir 30 m/s, einkum austantil. Aðstæður geta verið varhugaverðar fyrir vegfarendur með aftanívagna eða ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum.

Klukkan 13 á morgun tekur svo við önnur gul viðvörun sem gildir fram fram á nótt en þá er spáð suðvestan hvassviðri og éljum, 13-18 m/s. Búast má við talsverðum éljagangi með skafrenningi og takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum, einkum til fjalla. Afmarkaðar samgöngutruflanir eru líklegar. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga