Frá Hvammstanga
Frá Hvammstanga
Fréttir | 13. mars 2024 - kl. 10:59
Samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Húnaþingi vestra

Áætlað er að byggðar verði 12 íbúðir í Húnaþingi vestra á þessi ári og allt að 40 íbúðir á næstu fjórum árum þar á eftir. Gert er ráð fyrir að hluti íbúðanna verði seldur á almennum markaði en hluti verði leiguíbúðir fyrir tekjulægri einstaklinga. Áform þessi eru í samræmi við samkomulag milli innviðaráðuneytisins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Húnaþings vestra um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í sveitarfélaginu. Samkomulagi var til umræðu á fundi sveitarstjórnar í gær.

Samkomulagið er jafnframt í samræmi við rammasamning innviðaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um uppbyggingu 35 þúsund íbúða á landsvísu á tíu árum til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins á landinu öllu. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir uppbyggingu íbúða í Húnaþingi vestra í samræmi við þörf sem fram kemur í húsnæðisáætlun sveitarfélagsins og uppfærð er árlega. Samið verður við Brák íbúðafélag um uppbyggingu leiguhúsnæðisins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga