Fréttir | 26. mars 2024 - kl. 14:11
Byggðarráð harmar ákvörðun Íslandspósts

Byggðarráð Húnaþings vestra harmar einhliða ákvörðun Íslandspósts um að loka Pósthúsinu á Hvammstanga, sem hafi í för með sér niðurlagningu á 2,5 stöðugildi. Ákvörðunin rýri samkeppnishæfni fyrirtækja sem selji vörur í vefverslun á svæðinu þar sem aðgengi að þjónustu geti haft áhrif á afgreiðsluhraða. Þetta kemur fram í bókun byggðarráðs frá fundi þess í gær.

Íslandspóstur hefur gefið það út að breytingar verði gerðar á póstþjónustu á fjórum stöðum á Norðurlandi í sumar. Loka á pósthúsum á Hvammstanga, Siglufirði og Dalvík og samstarfspósthúsi á Ólafsfirði. Þá kemur fram að póstbox séu nú þegar komin á Hvammstanga og Dalvík og að ánægðustu viðskiptavinir Íslandspósts eru þeir sem nota póstbox. Þau séu opin árið um kring, allan sólarhringinn og hægt sé meira að segja að póstleggja sendingar í þeim.

Byggðarráð Húnaþings vestra segir í bókun sinni að rök Íslandspósts, um að með breytingunni gefist tækifæri á aukinni þjónustu með því að fá póstbíl til sín, séu vissulega rétt en bendir á að sú þjónusta beri gjald sem rýri enn frekar samkeppnishæfni þessara fyrirtækja sem þegar búa við aðstöðumun vegna staðsetningar. Þá kemur fram í bókuninni að lokun pósthússins gangi gegn stefnu stjórnvalda og að hún feli í sér stóraukið kolefnisfótspor.

Sjá má ítarlega bókun byggðarráðs Húnaþings vestra hér.

Byggðarráð harmar að opinbert hlutafélag gangi gegn stefnu stjórnvalda með eins skýrum hætti og gert er með þeim breytingum sem kynntar hafa verið og hefur sveitarstjóra verið falið að koma athugasemdum ráðsins á framfæri og óska eftir því að forsvarsmenn Íslandspósts kynni fyrirhugaðar breytingar á íbúafundi.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga