Frá ársþinginu. Mynd: ssnv.is
Frá ársþinginu. Mynd: ssnv.is
Fréttir | 13. apríl 2024 - kl. 10:27
Ársþing SSNV á Blönduósi heppnaðist vel

Þrítugasta og annað ársþing Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra var haldið á fimmtudaginn í Félagsheimilinu á Blönduósi og heppnaðist vel, að því er segir á vef samtakanna. Góð mæting var á þingið en á meðal gesta voru kjörnir fulltrúar á Norðurlandi vestra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Fjölbreytt og áhugaverð erindi voru flutt og ný samgöngu- og innviðaáætlun kynnt. Fram kemur á vef SSNV að frekari upplýsinga er að vænta um það sem fram fór á þinginu.

Stjórn SSNV veitir ár hvert viðurkenninguna Byggðagleraugun til ráðuneytis, stofnunar eða fyrirtæki sem þykir hafa skarað fram úr í fjölgun starfa/verkefna í landshlutanum eða með öðrum hætti stuðlað að uppbyggingu hans. Er viðurkenningunni ætlað að hvetja forsvarsmenn stofnana og fyrirtækja til að horfa með “byggðagleraugunum” á verkefni sinna eininga og nýta þau tækifæri sem gefast til flutnings starfa/verkefna á landsbyggðina í samræmi við áherslur byggðaáætlunar. Byggðagleraugun í ár hlaut Háskólinn á Hólum.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga