Fréttir | 26. apríl 2024 - kl. 10:32
Plokkað um allt land um helgina

Stóri plokkdagurinn er á sunnudaginn. Íbúar sveitarfélaga eru hvattir til þess að taka þátt í deginum og plokka eins og vindurinn í sínu næsta nágrenni, eða á öðrum vel völdum svæðum. Í Húnaþingi vestra verður plokkað alla helgina og ætla krakkar í leik- og grunnskólanum að ríða á vaðið og byrja að plokka í dag. Hægt verður að nálgast plastpoka í sundlauginni á opnunartíma og þar verður einnig hægt að losa sig við ruslið í ruslakör.

Stofnaður hefur verið Facebook viðburður og þau sem deila mynd þar af afrakstri plokksins og staðsetningu, komast í pott og geta unnið glaðning. Plokkið er skemmtilegur árlegur viðburður í þágu samfélagsins og margar hendur vinna létt verk. Hægt er að plokka víða, í garðinum heima, við fyrirtækið, kringum útihúsin, á opnum grænum svæðum, meðfram veginum og víðar.

Stóri plokkdagurinn var fyrst haldinn 2018. Allir geta tekið þátt í deginum, einstaklingar, fjölskyldur, vinahópar, vinnustaðir og stofnanir. Þetta er eins auðvelt og hugsast getur.

Plokkað síðar á Skagaströnd
Sveitarfélagið Skagaströnd ætlar að efla til plokkdags svipuðum og undanfarin ár, með grilluðum pulsum fyrir plokkarana. Dagurinn verður þó ekki sunnudaginn 28. apríl eins og á landsvísu heldur í maí þegar snjórinn er farinn, að því er segir á Skagastrandarvefnum. Frekari tímasetning verður auglýst síðar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga