Katrín M. Guðjónsdóttir framkvstj. SSNV og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitastjóri undirrituðu samninginn. Mynd: ssnv.is
Katrín M. Guðjónsdóttir framkvstj. SSNV og Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitastjóri undirrituðu samninginn. Mynd: ssnv.is
Fréttir | 27. apríl 2024 - kl. 10:03
Samningur um styrk til uppsetningar samfélags- og tæknimiðstöðvar á Hvammstanga

Húnaþing vestra og Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa undirritað samning um 10,5 milljón króna styrk til uppsetningar samfélagsmiðstöðvar og tæknimiðstöðvar í anda FabLab smiðju í Félagsheimilinu á Hvammstanga. Verkefnið, sem nefnist Hjartað í Húnaþingi vestra, snýst um að koma upp nýsköpunar-, viðgerða- og þróunaraðstöðu fyrir íbúa á svæðinu, sem og aðstöðu fyrir félagsstarf. Sagt er frá þessu á vef SSNV.

Innviðaráðherra auglýsti eftir umsóknum um framlög sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar vegna verkefna sem tengjast aðgerð C1 eða sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og var úthlutað til sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Sigurður Ingi Jóhannsson þáverandi innviðaráðherra úthlutaði styrkjum til tíu verkefna á landsbyggðinni að fjárhæð 130 milljónum króna. SSNV sótti um fyrir hönd sveitarfélaga í landshlutanum og hlaut Norðurland vestra 40 milljónir í styrk til þriggja verkefna í landshlutanum. Verkefnin eru FabLab smiðja og aðstaða til nýsköpunar og þróunar í Húnaþingi vestra, samvinnurými á Skagaströnd og tilraunagróðurhús í Húnabyggð.

Tengd frétt:
Ráðist í endurbætur á Félagsheimilinu Hvammstanga

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga