Fr├ęttir | 06. júlí 2024 - kl. 09:59
Dagskr├í H├║nav├Âku 2024

Dagskrá Húnavöku er klár en hátíðin verður haldin á Blönduósi í 21. sinn dagana 17.-21. júlí. Miðvikudaginn 17. júlí ætla íbúar Húnabyggðar, í þéttbýli og dreifbýli, að skreyta hús sín hátt og lágt fyrir hátíðina og þá ætlar húnvetnska hljómsveitin Slagarasveitin að halda tónleika í Krúttinu. Haldið verður götugrill við Félagsheimilið á Blönduósi síðdegis fimmtudaginn 18. júlí og býður Húnabyggð öllum íbúum og gestum Húnavöku í grillveislu. Allir eiga að taka með sér stóla og borð. Um kvöldið verða tónleikar í bíósalnum með Júníusi Meyvant og Styrktarbingó meistaraflokks Kormáks og Hvatar.

Föstudaginn 19. júlí verður VILKO vöfflu röltið í boði VILKO og MS en þá bjóða heimamenn gestum og gangandi vöfflukaffi. Froðurennibraut veður í brekkunni við Blönduóskirkju og flugklúbbur Blönduóss verður með útsýnisflug ef veður leyfir. Dagur Sigurðsson, Bóas Gunnarsson og Einar Örn Jónsson verða með tónleika í Krúttinu og stórdansleikur með hljómsveitinni Bandamönnum verður í Félagsheimilinu.

Hápunktur hátíðarinnar verður laugardaginn 20. júlí en þá fer fram golfmót á Vatnahverfisvelli, opið mót í ólympísku skeet á skotsvæði Markviss og búningahlaup fyrir káta krakka á íþróttavellinum á Blönduósi. Boðið verður upp á útsýnisflug, tónleika, torfæru, vélasýningu, listsýningu, leiksýningu, handverksmarkað og margt fleira. Fjör verður á skólalóð Húnaskóla með margvíslegri afþreyingu fyrir alla. Dagurinn endar svo á Kótelettukvöldi, kvöldskemmtun og stórdansleik.

Sunnudaginn 21. júlí verður fjölskylduganga í Bolabás og dillandi afrísk dans- og trommugleði fyrir alla fjölskylduna í Íþróttamiðstöðinni. Minjastofa Kvennaskólans og Vatnsdæla á refli verða opin aðeins þennan eina dag í sumar og er frítt inn. Stofutónleikar verða í Heimilisiðnaðarsafninu og gong slökun í Fagrahvammi, svo sitthvað sé nefnt um dagskrá Húnavöku 2024.

Dagskrá Húnavöku 2024 má sjá á facebooksíðu hátíðarinnar.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga