Hvað ertu að hnýsast? Ljósm: Jón Sig.
Hvað ertu að hnýsast? Ljósm: Jón Sig.
Fréttir | 11. júní 2007 - kl. 22:53
Hvalur í höfninni á Blönduósi

Hvalur, sem að öllum líkindum er hnísa af stærri gerðinni, gerði sig heimakominn við höfnina á Blönduósi í blíðunni í gær. Margir urðu vitni að þessum atburði og höfðu menn af skemmtan nokkra. Krakkarnir hrópuðu upp að Keikó væri kominn.

 

Fréttaritari Morgunblaðsins á Blönduósi, Jón Sigurðsson, komst svo að orði að það hefði verið ævintýraleg sjón að sjá hvalinn synda um í höfninni og hin besta skemmtun sem var ókeypis að auki. Greinilegt var að hvalurinn var í æti og naut fuglinn góðs af tilburðum hans við veiðarnar. Ef grannt var skoðað mátti sjá eina og eina loðnu skjótast upp úr sjónum undan hvalnum. Fyrst sást til hans rétt rúmlega eitt en hann ílengdist í höfninni fram eftir degi og fór ekki fyrr en um sexleytið.

 

Nokkur fjöldi safnaðist á bryggjuna til að fylgjast með hvalnum og stóð fólk á bryggjunni og hringdi í vini og vandamenn til að bera þeim fréttirnar. Það kemur nokkrum sinnum fyrir að menn sjá hvali rétt utan við ströndina og selir eru nánast daglegir gestir við bæjardyr Blönduósbúa. Heimild: morgunblaðið

Höf. ass

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga