Reykjaskóli. Mynd: Skolabudir.is
Reykjaskóli. Mynd: Skolabudir.is
Fréttir | 24. febrúar 2011 - kl. 14:46
Reykjaskóli 80 ára

Í ár eru 80 ár frá því að skólahald hófs í Reykjaskóla en það var 7. janúar árið 1931 sem fyrstu nemendur hófu nám við skólann. Starfsemi hefur verið óslitin í skólanum frá þessum tíma en árin 1940 - 1943 hafði breskt setulið aðsetur á Reykjatanga og þar með í skólanum. Skólahald var óslitið til 1988 en frá þeim tíma hafa Skólabúðirnar verið reknar í Reykjaskóla.

Karl B. Örvarsson hefur ritaði byggðarráði Húnaþings vestra bréf þar sem hann vekur athygli á þessum tímamótum og lýsir sig reiðubúinn til samstarfs þar um við sveitarstjórn Húnaþings vestra. Byggðarráð er sammála því að vert sé að minnast tímamótanna og hefur falið sveitarstjóra og formanni byggðarráðs að ræða við Karl um atriði er málinu tengjast.

Á vef Skólabúða Reykjaskóla kemur fram að haldið verði upp á þessi tímamót síðar á árinu og verði það auglýst þegar þar að kemur. Rekstraraðilar Skólabúðanna eru hjónin Karl B. Örvarsson og Halldóra Árnadóttir og hafa þau starfað við Skólabúðirnar frá árinu 2001.

Skólabúðirnar í Reykjaskóla tóku til starfa haustið 1988 og hafa starfað óslitið síðan. Nemendum grunnskóla víðsvegar að af landinu gefst kostur á að dvelja í skólabúðunum, vikutíma í senn við nám, leik og störf. Árlega koma á bilinu 2.800-3.000 börn í skólabúðirnar og miðast starfstíminn að mestu við skólaár grunnskóla landsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga