Fréttir | 20. mars 2011 - kl. 18:10
Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum

Stjórn Samtaka sveitarfélag á Norðurlandi vestra skorar á öll sveitarfélög landsins að standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga í skipulagsmálum. Stjórnin beinir því til alþingismanna að leggjast gegn öllum áformum um lagasetningar sem ganga gegn þeim rétti.

Þetta kemur fram í bókun stjórnarfundar SSNV frá 15. mars síðastliðnum en þar var m.a. til umræðu nýframlögð þingsályktunartillaga nokkurra þingmanna um lagningu Svínavatnsleiðar sem og framganga Akureyrarbæjar varðandi sama mál.

Í bókuninni ítrekar stjórn SSNV fyrri ályktanir sem og ályktun 18. ársþings SSNV um að lögum samkvæmt fari sveitarfélögin með skipunarvaldið. Þá lýsir stjórnin undrun á framgöngu Akureyrarbæjar í umfjöllun um lagningu Svínavatnsleiðar sem gangi freklega gegn rétti og hagsmunum viðkomandi sveitarfélaga.

Bókun stjórnar SSNV frá 15. mars sl.:

 „Stjórn SSNV  ítrekar fyrri ályktanir sem og ályktun 18. ársþings SSNV um að lögum samkvæmt fara sveitarfélögin með skipulagsvaldið. Stjórnin skorar á öll sveitarfélög landsins að standa saman vörð um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga í skipulagsmálum. Stjórnin beinir því til alþingismanna að leggjast gegn öllum áformum um lagasetningar sem ganga gegn þeim rétti. Stjórnin lýsir undrun á framgöngu Akureyrarbæjar í umfjöllun um lagningu svonefndrar Svínavatnsleiðar/Húnavallaleiðar sem gengur freklega gegn rétti og hagsmunum viðkomandi sveitarfélaga og lesa má í fundargerð bæjarráðs Akureyrarbæjar frá 10. mars 2011.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga