Bærinn skreyttur. Mynd: Skagastrond.is
Bærinn skreyttur. Mynd: Skagastrond.is
Fréttir | 12. ágúst 2011 - kl. 09:51
Kántrýdagar á Skagaströnd hefjast í dag

Kántrýdagar á Skagaströnd hefjast í dag og standa fram á sunnudag. Íbúar hafa staðið í ströngu við að skreyta götur bæjarins og setja skreytingarnar skemmtilegan svip á bæinn. Í miðbænum er búið að reisa hátíðartjald. Kántrýdagar hefjast formlega með fallbyssuskoti klukkan 18:00 í dag.

Dagskrá Kántrýdaga er með nokkuð hefðbundnu sniði. Í dag klukkan 11 opnar galleríið Djásn og dúllerí en þar er að finna gott og vandað vöruúrval handverks, hönnunar og myndlistar eftir fólk af svæðinu. Það sem af er sumri hafa um 1.600 manns heimsótt galleríið. Á Kántrýdögum verður opnunartíminn frá klukkan 11 til 18.

Milli klukkan 13 og 17 verður yfirlitssýning Sveinbjörns H. Blöndal í íþróttahúsinu opin og á sama tíma verður sýningin Alþýðuheimili 1900-1920, opin í Árnesi, elsta húsinu á Skagaströnd.

Frá klukkan 13 til 18 verður hægt að skoða samsýningu listamanna ágúst mánaðar hjá Nesi listamiðstöð og sýning um Þórdísi spákonu verður opin milli klukkan 13 og 19 í Spákonuhofi. Þar verður spáð í spil, bolla og rúnir og lesið í lófa.

Eins og áður sagði hefjast Kántrýdagar formlega klukkan 18 með fallbyssuskoti.

Á sama tíma hefst dótakassamarkaður við Fellsborg þar sem hægt verður að skiptast á dóti og bókum, krakkar bjóða upp á veitingar og þrautir verður fyrir fullorðna.  Kántrýsúpupartí verður haldið klukkan 19 til 20 í hátíðartjaldinu þar sem BioPol býður öllum sem vilja í gómsæta súpu.

Frá klukkan 20 til 21:30 verða haldinir stórtónleikar í hátíðartjaldinu þar sem hljómsveitin Janus og Blue grass hljómsveitin Borther Grass spila. Klukkan 21 verða tónleikar í Bjarmanesi þar sem Margrét Eir syngur lög úr söngleikjum.

Dagurinn í dag endar með varðeld og söng í Grundarhólum og balli í Kántrýbæ. Jonni og Fannar munu leiða söng við varðeldinn og hljómsveitin Jansu ætlar að halda uppi fjörinu í Kántrýbæ.

Á morgun hefst dagurinn með Þórdísargöngu á Spákonufell, dorgveiðikeppni á höfninni og götumarkaði á Bogabraut.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga