Fréttir | 29. desember 2011 - kl. 20:57
Ákvörðunin sé heimamanna

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, lítur svo á að flutningur hringvegarins frá Blönduósi yfir á nýja Svínvetningabraut og flutningur hans til suðurs frá Varmahlíð eigi ekki að vera viðfangsefni skipulagsyfirvalda nema að sveitarfélögin á svæðinu óski eftir því sjálf. Þetta kemur fram í bréfi frá innanríkisráðuneytinu til hreppsnefndar Húnavatnshrepps.

Bréf innanríkisráðuneytisins er frá 28. nóvember síðastliðnum og var lagt fram á 114. fundi hreppsnefndar Húnavatnshrepps þann 16. desember síðastliðinn. Í bréfinu eru upplýsingar þess efnis að í tillögum innanríkisráðherra um fjögurra og tólf ára samgönguáætlun eru hvorki gerðar tillögur um flutning á hringveginum frá Blönduósi yfir á nýja Svínvetningabraut, né flutning hans til suðurs frá Varmahlíð. Innanríkisráðherra líti svo á að flutningur hringvegarins á þessum stöðum eigi ekki að vera viðfangsefni skipulagsyfirvalda nema sveitarfélögin sjálf óski eftir því, eins og segir í fundargerð hreppsnefndar Húnavatnshrepps.

Efni bréfsins er í samræmi við ummæli innanríkisráðherra á ársþingi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í ágúst síðastliðinn er hann sagði að hann myndi hlusta á sjónarmið íbúa á Blönduósi en bæði bæjarstjórn Blönduósbæjar og sveitarstjórnar Húnavatnshrepps hafa lagst gegn tillögum Vegagerðarinnar um styttingu þjóðvegarins með svokallaðri Húnavallaleið.

Ögmundur sagði jafnframt í því sambandi að brýnt væri að hlusta á vilja heimamanna þegar vegaframkvæmdir væru annars vegar um leið og tekið væri tillit til umhverfissjónarmiða svo og fjárráða ríkissjóðs.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga