Húsfrúin | 20. febrúar 2012 - kl. 22:54
Ég á ungan lestrarhest

Ég á ungan lestrarhest. Ég vildi að ég ætti þrjá lestrarhesta en ég á bara einn, en það er aldrei að vita hvað gerist. Kannski fjölgar þeim. Þá er ég að auðvitað að meina að áhugi þeirra sem ekki eru það breytist, ekki að ég eigi eftir að eignast fleiri... Nóg um það.

Því fylgja svolítil vandkvæði að eiga lestrarhesta – sérstaklega þegar kemur að háttatíma. Þá vilja þessar elskur ekki endilega fara að sofa þegar foreldrarnir segja að kominn sé háttatími og tími til að slökkva ljósin. Þá þarf lestrarhesturinn bara smááá stund, ýmist til að klára blaðsíðuna, kaflann eða hreinlega bókina ef þannig stendur á. Þá eru ævintýrin rétt að byrja, eða kannski svo spennandi, krefjandi eða svo ótrúlega, ótrúlega sorgleg að það er bara ekki hægt að hætta.  Sem betur fer þekki ég þessa tilfinningu og get því yfirleitt sýnt biðlund – en auðvitað má ekki slaka á reglum um svefn of mikið því þá er næsti skóladagur í hættu. Og það gengur náttúrlega ekki!

Ég var svo heppin að sitja fyrirlestur hjá tveimur frábærum rithöfundum nú nýverið en þær Margrét Örnólfsdóttir og Kristín Helga Gunnarsdóttir heimsóttu skólann minn og töluðu við krakkana. Þær lásu líka uppúr nýjustu bókum sínum og satt að segja get ég varla nokkuð sagt um hvað krökkunum fannst um fyrirlesturinn því ég var sjálf svo heilluð að ég gleymdi algjörlega stund og stað þennan tæpa klukkutíma sem þær töluðu. Þessar stöllur hafa báðar náð þeim frábæra árangri að skrifa fyrir börn og unglinga og náð eyrum þeirra. Það er ekki svo slæmur árangur mitt í umræðunni um minnkandi lestraráhuga barna og unglinga.

Mér fannst held ég allt alveg frábært sem þær Margrét og Kristín Helga sögðu en ein athugasemd varðandi það hvað lestur er frábær situr sérstaklega í mér, enda gæti ég varla verið þeim meira sammála. Þær sögðu eitthvað á þá leið að bækur væru auðveldasti ferðamátinn. Með bók sér við hönd gætum við svo auðveldlega ferðast til annarra landa, kynnst ólíkum menningarsvæðum já og upplifað ótrúlegustu ævintýri og það allt heima hjá okkur. Þetta get ég svo auðveldlega tekið undir en ég á mjög auðvelt með að lifa mig inn í ólíkar aðstæður og svitna af spenningi í æsilegum eltingaleikjum,  græt með söguhetjum á gleði- og sorgarstundum, hlæ upphátt að spaugilegum aðstæðum og fæ gæsahúð þegar eitthvað hræðilegt gerist. Stundum ligg ég andvaka eftir að hafa lesið einhverja snilld, stundum af spenningi, stundum af vanlíðan – en þá er hugurinn fastur í söguþræði bókarinnar og erfitt að ná sér niður. Þrátt fyrir nokkrar andvökunætur veit ég fátt notalegra en að liggja uppi í rúmi eða sófa með góða bók og gleyma stað og stund, verst að maður leyfir sér alltof sjaldan að gleyma hinu daglega amstri og húsverkum. Kannski þarf bara að gera eitthvað í því...

Þið sjáið á öllu ofantöldu að ég hef fullan skilning á aðstæðum unga lestrarhestsins míns þegar erfitt er að hlýða kallinu á kvöldin – en auðvitað reynir maður að hafa einhverja stjórn á þessari elsku.

Mikil umræða hefur verið undanfarið um minnkandi lestur og lestraráhuga barna og unglinga. Ef ég miða við þá unglinga sem ég kenni þá veit ég það fyrir víst að alltof fáir þeirra lesa bækur af fúsum og frjálsum vilja. Líklega læsu einhverjir þeirra ekki neitt (nema af tölvuskjám) ef ég léti þá ekki gera það. En það er svo merkilegt að þegar þeir láta sig hafa það og lesa bók eða smásögu þá virðist það nú ekki svo slæmt. Næstum undantekningarlaust mæla unglingarnir til dæmis með bókum sem þeir lesa fyrir svokallaðar valbókarkynningar hjá mér!

Ég hef undanfarin sumur lesið einhverjar nokkrar barna- og unglingabækur. Mér finnst þetta nauðsynlegt til að geta mælt með bókum við áhugasama lestrarhesta – já, eða reynt að beina þeim frá þeim sem að mínu mati hafa ekki reynst mjög áhugaverðar, því ungir lestrarhestar eru kröfuharðir neytendur, alveg eins og við fullorðna fólkið. Með þessu móti hefur mér líka tekist að fylgjast betur með því sem heillar og rætt er um. Ég nefnilega alltaf að reyna að fjölga lestrarhestunum.

Heima hjá mér held ég áfram að ota bókum að börnunum mínum og lesa á kvöldin um ævintýri á fjarlægum, já og nálægum, stöðum í þeirri von að lestrarhestunum mínum fjölgi.

Góðar (lestrar)-stundir

 

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga