Fréttir | 19. apríl 2012 - kl. 08:59
Húnavallaleið út af borðinu
Hætt við styttingu hringvegar

Innanríkisráðherra hefur fallist á sjónarmið sveitarfélaga sem lagst hafa gegn hugmyndum um styttingu hringvegarins, m.a. um svokallaða Húnavallaleið/Svínavatnsleið. Blönduós og Varmahlíð verða því áfram við hringveginn. Vegamálastjóri sendi bréf í vikunni.

Sagt er frá þessu í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að innanríkisráðherra hafi ákveðið að Vegagerðin skuli ekki vinna áfram að tillögum um tilteknar breytingar á legu hringvegarins um Blönduós, Húnavatnshrepp og Skagafjörð.

Samkvæmt því dregur Vegagerðin til baka kröfur um að hugsanlegar veglínur verði sýndar á aðalskipulagi sveitarfélaganna," segir í bréfi sem Hreinn Haraldsson vegamálastjóri skrifaði viðkomandi sveitarfélögum síðasta þriðjudag.

Í bréfi sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skrifaði vegamálastjóra, dagsettu 13. apríl síðastliðinn, óskar hann eftir því að Vegagerðin sendi sveitarfélögunum bréf. "Fyrir liggur að ég hef tekið ákvörðun er varðar innanríkisráðuneytið og stofnanir þess í samráði við sveitarfélögin á þessu svæði um að ekki verði gerðar tillögur um flutning á hringveginum frá Blönduósi yfir á nýja Svínvetningabraut né flutning hans til suðurs frá Varmahlíð," segir Ögmundur í bréfinu að því er fram kemur í Fréttablaðinu. Hann vísar til fyrri samskipta við sveitarfélögin í kjölfar skoðanaskipta á ársþingi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í ágúst. "Ég lít svo á að flutningur hringvegarins á þessum stöðum eigi ekki að vera viðfangsefni skipulagsyfirvalda nema sveitarfélögin óski sjálf eftir því," segir hann í bréfi til SSNV í lok nóvember í fyrra.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga