Húsfrúin | 21. janúar 2013 - kl. 12:29
Menning og meira

Menning og meira

Ég tel mig vera þokkalega duglega að mæta á menningarviðburði á svæðinu og oft verð ég hissa á hvað margt er í boði. Tónleikar, alls kyns sýningar, upplestrar og fyrirlestrar er eitthvað sem mér finnst almennt óskaplega skemmtilegt að mæta á og missi helst ekki af ef ég mögulega get. Auðvitað eru fjölmargar uppákomur sem fara framhjá mér, en þannig er það nú bara. Ég get víst ekki verið alls staðar, þó svo ég glöð vildi.

Ég er óendanlega þakklát því fólki sem stendur fyrir þessum fjölbreyttu uppákomum. Mjög oft er þetta eitthvað sem fólk stendur í utan hefðbundins vinnutíma og fær lítil sem engin laun fyrir, en gerir samt og oftast með glöðu geði, tel ég. Svæðið okkar væri fátækara ef þessu fólki nyti ekki við.

Mjög oft á þetta við um tónlistarfólkið okkar. Margir sem tilheyra þessum hæfileikaríka flokki eru ótrúlega duglegir að æfa fyrir hina ýmsu viðburði og auðvitað fara þær æfingar fram á kvöldin og um helgar. Það er ekki sjálfgefið að fólk geri þetta og við verðum að muna að þakka þeim fyrir, til dæmis með því að mæta á þessa viðburði... Við eigum fjölbreyttan hóp hæfra tónlistarmanna og söngvara á öllum aldri, sem virkilega gaman er að fylgjast með og hlusta á.

Ekki má gleyma að minnast á alla þá sem starfa fyrir hins ýmsu félög og samtök sem hér eru. Hvernig væri til dæmis Vöku-þorrablótið ef konur í kvenfélaginu stæðu ekki á haus við undirbúning í marga, marga, marga daga? Hvernig gengi öllu íþróttafólkinu okkar; hestafólki, golfurum, knattspyrnufólki, frjálsíþróttafólki, sundgörpum og þeim sem stunda júdó, ef ekki væri fyrir þá sem eru til í að gefa tíma sinn til skipulagningar, fjáröflunar, undirbúnings og alls þess sem þarf til að hægt sé að halda úti þessu frábæra starfi? Ég held að heldur dauflegt væri um að lítast á því sviðinu.

Auðvitað verður að benda á að ef ekki væri fyrir okkur sem stundum allt það sem í boði er, þá væri erfitt að halda áfram að bjóða uppá þá fjölbreyttu afþreyingu sem við höfum, þrátt fyrir fámennið. Ef við skoðum til dæmis þá hreyfingu sem hægt er að stunda – fyrir utan hressilega útiveru í okkar dásamlega hreina lofti – þá er hægt að fara í sund og þreksalinn á eigin vegum, fara í jóga, kvennaleikfimi, badminton, Metabolictíma, Zumba-dans, sundleikfimi, einkaþjálfun og vafalaust eitthvað fleira sem ekki kemur upp í hugann einmitt núna. Svo er hægt að syngja í kórum, sauma í refilinn góða og ganga í björgunarsveitina.

Mikið sem ég sakna þess að telja ekki upp leikfélagið í þessari upptalningu en það síðasta sem ég frétti af starfsemi þar var að margir vildu leika (sem er auðvitað alveg frábært) en enginn fengist í öll hin störfin sem þarf að vinna til að hægt sé að setja upp leikrit. Vonandi rætist úr svo við fáum fljótlega að njóta hæfileika þessa flotta fólks sem staðið hefur vaktina í leikfélaginu svo árum skiptir.

Það er auðvitað þetta marg umtalaða fámenni sem veldur því að ekki er alltaf fullt út úr dyrum í öllum klúbbum, félagasamtökum og á hinum ýmsu viðburðum. Hvert og eitt okkar hefur bara visst margar klukkustundir í hverjum sólarhring sem hægt er að verja í tómstundir og félagsstörf – og samkvæmt síðustu talningum fer okkur víst ört fækkandi.

Bara ef þessi vinna væri ekki alltaf að trufla okkur – þá gætum við nú aldeilis nýtt okkur öll þessi góðu tilboð af menningu, afþreyingu og hreyfingu...

Góðar stundir – hvar sem þið verjið þeim.

Húsfrúin

Höf. mbb

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga