Pétur Arnar og Kári
Pétur Arnar og Kári
Fréttir | 26. janúar 2013 - kl. 22:26
Feðgarnir Kári og Pétur Arnar eru menn ársins í Austur-Húnavatnssýslu 2012

Lesendur Húnahornsins hafa valið feðgana Kára Kárason og Pétur Arnar Kárason sem menn ársins í Austur-Húnavatnssýslu árið 2012. Tilkynnt var um útnefninguna á þorrablóti Vökukvenna sem haldið er í Félagsheimilinu á Blönduósi í kvöld og fengu feðgarnir sitthvorn viðurkenningarskjöldinn þessu til staðfestingar. Fjölmargar tilnefningar bárust en Kári og Pétur Arnar fengu langflestar.

Kári Kárason og Pétur Arnar Kárason unnu björgunarafrek í mars í fyrra þegar þeir sýndu mikið snarræði og björguðu manni sem sat fastur í bíl sem oltið hafði ofan í Laxá á Ásum. Þeir feðgar komu akandi eftir þjóðveginum þegar þeir sáu bíl sem koma akandi á móti þeim taka snögga beygju með þeim afleiðingum að hann endastakkst á bakkanum og lenti síðan úti í ánni á hvolfi. Kári hringdi strax á Neyðarlínuna og gaf þeim upp staðsetningu. Síðan tók sonur hans Pétur Arnar við símanum og sá hann um samskipti við Neyðarlínuna á meðan Kári reyndi að opna dyrnar á bílnum í ánni. Ekki var hægt að opna bílstjóramegin og þurfti Kári að fara lengra út í ána og tókst honum að opna farþegadyrnar. Maðurinn í bílnum var fastur í belti og gat Kári ekki losað það.

Þegar þarna var komið sögu var bíllinn hálffullur af vatni, hann var á hvolfi og ökumaðurinn því með höfuðið ofan í vatninu og að auki fastur í beltinu. Kári greip því til þess bragðs að lyfta höfðinu upp úr vatninu og stóð í ískaldri ánni uns hjálp barst. Pétur Arnar stöðvaði fyrsta bílinn sem koma akandi eftir veginum en í honum voru sjúkraflutningamenn og kom þeir feðgunum til aðstoðar við björgunina.

Feðgarnir voru báðir mættir í Félagsheimilið á Blönduósi í kvöld til að taka móti viðurkenningum í tilefni af útnefningunni en hefð hefur skapast að tilkynna um mann ársins á hinu sívinsæla þorrablóti Vökukvenna sem ávallt er haldið fyrsta laugardag í þorra.

Þetta er í áttunda sinn sem lesendur Húnahornsins velja manni ársins í Austur-Húnavatnssýslu.

Menn ársins síðustu ár eru þessir:

2012: Kári Kárason og Pétur Arnar Kárason
2011: Einar Óli Fossdal.
2010: Bóthildur Halldórsdóttir.
2009: Bóthildur Halldórsdóttir.
2008: Lárus Ægir Guðmundsson.
2007: Rúnar Þór Njálsson.
2006: Lárus B. Jónsson.
2005: Lárus B. Jónsson.

Húnahornið óskar feðgunum innilega til hamingju með útnefninguna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga