Reykjavík 1881. Ljósm: Wikipedia.org
Reykjavík 1881. Ljósm: Wikipedia.org
Pistlar | 09. maí 2017 - kl. 09:20
Stökuspjall: Þys við þorskakasir
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

„Föst lífsskoðun, hviklaus stefna, járnbentar hugsanir eru ómissandi kostur í illdeilum, byljum og bardögum, þær eru vetrarföt og herklæði. Kossar eru engin lífsskoðun, faðmlög engin stefna, sumarleikir okkar um lautir og bala engin djúpsett rökfræðisraun . . . . En samt . . . . mannkynið myndi tæpast lengi fara í vetrarföt og herklæði, ef það ætti ekki að vinna fyrir faðmlögum og sumri". Hér birtast orð Þorsteins Erlingssonar skálds í bók Vilhjálms útvarpsstjóra um blöð og blaðamenn allt frá 1773. Bókarhöfundur er í raun að skoða hvernig skáldskapur og og stjórnmál fléttast einlægt saman í blöðunum á næstsíðustu öld þar sem útgerðarmenn hleyptu stundum nýju blaði af stokkunum og réðu skáld fyrir ritstjóra. Stundum lögðu eldhugarnir einir af stað!  Í næsta kafla bókarinnar fjallar Vilhjálmur um um annan Þorstein ritstjóra, nl. föður sinn, Gíslason eins og þeir bræður Gylfi Þ. og Vilhjálmur kölluðu sig Gíslasyni þó börn þeirra hafi lagt þann sið af og kalli sig Vilhjálms- og Gylfabörn.

Um skáldið sr. Matthías segir Þorsteinn Gíslason: Ég hef aldrei verið í kirkju hjá séra Matthíasi. En ég get hugsað mér að ég væri þar. Og mér finnst að öðru megin á altaristöfluna hjá honum ætti að vera myndaður Hallfreður vandræðaskáld, Arnór, Einar Skúlason eða einhver hinna fornu kveðandi Íslendinga, en hinu megin postulinn Páll. Það er að segja ég vildi setja þessa mynd yfir hans „poetiska altari". Hlutur Þorsteins Gíslason í íslenskri blaðaútgáfu er stór, s.s. Sunnanfara, Lögréttu, Óðni, Íslandi og Bjarka á Seyðisfirði. Matthías Jochumsson skrifar Þorsteini 1897 norðan af Akureyri:„ . . . til stakra heilla og hamingju með Ísland. Mig undrar – og marga hér – yðar þor og áræði, en þetta plan er sjálfsagt lagt fyrir löngu – verst er féleysið, féleysið, féleysið. Að hafa sem flest til fjölbreyttast, -- það er hjá oss eitt aðalspursmál. Að vera radikal og orginal, andríkur, skömmóttur, partískur, -- getur allt dugað um stund og í viðlögum . . . . en drjúgara að spila á almennustu strengina og það eru alþýðunnar 5 skynfæri." En heillaóskir skáldsins dugðu ekki, síðasta blað Íslands kom út um jólin 1898 og Þorsteinn Gíslason fór austur að ritstýra Bjarka. En þeir hefðu brosað þessir kappar hefðu þeir haft vefritin og vefsíður nútímans til að láta gamminn geysa um lönd og höf. Kannski dottið í makræði. Bókarhöfundur vitnar í Pál Melsteð: Þegar þeir félagar hættu við blaðið Íslending eftir þrjú ár voru þeir í 900 ríkisdala prentsmiðjuskuld, en prentsmiðjan hafði tekið jafnóðum öll áskriftargjöld. Þeir fengu 200 dala afslátt og borguðu 100 dali hver en „fengu ekki einn eyri fyrir fyrirhöfn sína."

Ætli þeir hefðu ekki verið á fésbók hefði andi þeirra starfað 2017? Vísast ánægðir að hafa Húnahornið til að  senda pósta Húnvetningum og öðrum landsmönnum. Annar vefur er vestan flóans og sinnir einnig vel menningunni. Hann er mest skrifaður á Kirkjubóli þar sem býr Jón ritstjóri og þjóðfræðingur Jónsson.  

En förum nú ljóðaleit. Um Hornbjarg orti Þorsteinn Gíslason:

Turnafögur Hornbjarg heitir
höll við marar ál.
Þar á vori' um kvöld ég kom,
sá kynt í hamri bál.
Hallardyr að hafi snúa.
„Hér mun ríkur kóngur búa."
Gulls- og silki-glit frá tjöldum
geisla sást í öldum.

Lokavísan hljóðar svo:

Aðeins þegar sumarsólin
svona fögur kveld
inn til vætta hafs og hamra
himins sendir eld,
opnast hallir huldu-þjóða,
heimar, þar sem vögguljóða
draumnum ljúfa, dularspaka
dánir yfir vaka.

Hér er hringhenda eftir sama Þorstein:

Himinglossar glita svið.
Gljúfrafoss sér rólar.
Tíbrá hossar völlum við
varma kossa sólar.

Þorsteinn Gylfason heimspekingur var sonarsonur Þorsteins Gíslasonar, rómaður orðlistamaður, Vilmundur landlæknir var hinn afi hans, en vísnasafnið geymir eina vísu/limru úr orðasmiðju Þorsteins yngri:

„Ég var eins og vera ber,"
mælti Vera.„En ekki hver?
Fæst má nú gera . . ."
Og fyrr má nú vera
en vera eins og Vera ber.

Matthías hefur verið Oddaprestur þegar hann orti:

Spyr ég að norðan nísting harðan.
Neyð að vestan sögð er mesta.
Mistri er roðinn röðull í austri.
Rangárland er vorpið sandi.

Gr.Thomsen fylgdi Jóni forseta en útför hans var gerð frá Dómkirkjunni. Matthías smellti af honum mynd:

Grímur fylgdi á gráum kufli gamla Jóni,
hreysiköttur konungsljóni.

Andstæðu við háa turna Hornbjargs og Stranda má finna á dönskum grundum.  Hverfum til fyrri hluta nítjándu aldar --  til móts við Jónas frá Hrauni. Hann vaknar snemma sumardaginn fyrsta, fer út í eftirlitsferð og Lárus félagi hans, þyrstur í bréf frá félögum þeirra af strætum Hafnar, spyr þegar hann snýr aftur hvort  „skáldið" hefði ekki séð skip? Jónas grípur sendinguna á lofti:

Sér ei skáldið skip á öldu
skautum búið að landi snúa?
er ei þys við þorskakasir?
þóttast ekki búðadróttir?1
"Harður byr að hafnavörum
húna- rekur -jóinn lúna,
glatt er lið á götustéttum,
glápa sperrtir búðaslápar."

Strandir.is http://strandir.is/arsthing-heradssambands-strandamanna-haldid-a-drangsnesi/ Hornbjarg http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?U=z2&ID=972
Heimspekitorg: http://heimspekitorg.is/
Vísur sr. Matthíasar Jochumssonar: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=29789
Vefsíða Jónasar: http://jonashallgrimsson.is/
Skipkoma 1830: http://digicoll.library.wisc.edu/Jonas/Skipkoma/Skipkoma.html

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga