Tjarnarkirkja. Ljósm: kirkjukort.net
Tjarnarkirkja. Ljósm: kirkjukort.net
Pistlar | 06. ágúst 2017 - kl. 10:21
Stökuspjall: Ei mun tjá að tala um stjáið lýða
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Nú bættist ágúst í röð sumarmánaðanna og „ljúfir dagar líða fljótt“ gæti ófrumlegt skáldmenni tekið sér í munn meðan aðdáendur Eyjasöngva fylla mörg skip og taka lagið í Herjólfsdal á þjóðhátíð en við landbundnir finnum okkur annan stað og stund fyrir aðra söngva.

Þann 4. ágúst voru 30 ár liðin frá andláti nágranna og frænda, Erlendar í Bólstaðarhlíð. Hann mátti þreyja þorrann og góuna í orðsins fyllstu merkingu. Á  þriðja tug ára lá hann í fremra rúmi í hornherberginu á Héraðshælinu/sjúkradeild og þangað kom karlakórinn til að syngja fyrir þennan aflukta félaga sinn ef þeir áttu leið í Ósinn. En 6. ágúst er Húnaflói – kvæða- og vísnasafn þriggja ára og fjölgar þar smám saman vísum, höfundum, heimildum og auðvitað vinnustundum, en til flýtisauka eru þær eru ekki tíundaðar. Þær eru fróðleiks- og skemmtistundir.

Jón Ólafsson ritstjóri og hálfbróðir Páls – báðir synir sr. Ólafs á Kolfreyjustað – vann sér margt til frægðar og orti 6 vísna ritstjóraraunir og rímaði saman skrifa og lifa í þeim öllum.

Ungum lék mér löngun á
að lifa til að skrifa.
Sköp hafa því svo skipt, ég má
skrifa til að lifa.

Ýmsir Húnvetningar og þó sérstaklega Blönduósingar komu upp að Kleifum í síðasta mánuði en þar var sýning merkra listamanna en mörgum þótti þó ekki síðra að setjast niður með sýningarstjórum, súpa úr kaffibolla og rifja upp góðar stundir frá liðnum áratugum meðan Blanda raulaði bassann við túnfótinn.

Mynd af þremur bræðrum Kristins Magnússonar á Kleifum og honum sjálfum, var sótt inn í bæ, borin út í sólskinið þar sem gestir og húsráðendur rifjuðu upp sögur við gestaborðið sunnan við fjárhúshlöðum. Skólamenn voru nokkuð mest í kastljósinu en Ásgeir Magnússon, einn bræðranna stofnaði Alþýðuskólann á Hvammstanga 1913. Hann varð síðar fréttamaður  og fréttastjóri við ríkisútvarpið. Annar bróðir hét Magnús, lögfræðingur, ritstjóri og rithöfundur auknefndur Stormur eftir blaði sínu, en sá þriðji var Björn kennari á Blönduósi, síðar bóndi fram í Svínadal. Ásdís Kristinsdóttir á Kleifum hóf kennsluferilinn í heimabæ sínum, Blönduósi 1961 og er nú húsráðandi þar á Kleifum ásamt eiginmanni og fjölskyldu þeirra, en starfsvettvangur þeirra er oftar syðra. Sýning og veitingar voru í boði Kleifafjölskyldunnar. Gott er nú að eiga þennan góða húnvetnska vef til að þakka rausn þeirra og vekja athygli á menningarinnleggi listamannanna þar í fjárhúshlöðunni en tveir þeirra hafa þegar verið valdir á Feneyjatvíæringinn.

Bræðurnir Magnússynir fæddust á Ægissíðu en vestur þar á Vatnsnesi óx upp meðal margra skáldmæltra, Sigurður Bjarnason, sonarsonur skáldsins Sigurðar Ólafssonar í Katadal. Sigurður yngri var geysilega snjallmæltur og rímhagur, en náði aðeins 24 ára aldri. Hann hafði ort ótrúlega margt, svo ungur maður, hér að neðan er hann að hefja 9. rímu um Án bogsveigi:

Uppvaknaður óðar blað og penna
til ætlaða tónaskrá
tek eg, hvað sem gengur á.

Heldur mikið hér oss þykir vera
svakk og kvik af sveinum léð
sem vill hika og rugla geð.

Oft svo gengur, eru drengir kátir
sem á vengi sels við bý
sitja lengi veri í.

Ei mun tjá að tala um stjáið lýða;
eitthvað má þó erja við
óðar smáa handverkið.

Vefsýslumaður vill minna gesti síðunnar á guðsþjónustu í Tjarnarkirkju 20. ágúst kl. 14 en þar mun áðurnefndur Húnaflói/vísnavefur koma við sögu.

Vísað er til
Minningarorð um Ella í Hlíð: http://stikill.123.is/blog/2017/07/30/767924/
Kolfreyjustaður: https://www.east.is/is/east/place/kolfreyjustadur
Ritstjóraraunir http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5415
Húnaflói http://bragi.info/hunafloi/
Metrakerfið í Alþýðuskólann 1921: https://www.visindavefur.is/svar.php?id=72442
Ekkert jarm: https://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=13937
Án bogsveigir: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5430
Stökuspjall frá 6/7 um skáld á Vatnsnesi og Tjarnarmessuna.: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13905

Ingi Heiðmar Jónsson
 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga