Pistlar | 11. maí 2018 - kl. 09:44
Eyfirðingar auglýsa eftir kjarki
Eftir Sigmund Einar “feigsson

Ánægjulegt er að lesa í sáttmála ríkisstjórnarinnar að hún vill treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhengingaröryggi raforku um allt land. Nýverið var stofnaður starfshópur með aðkomu allra þingflokka til að vinna orkustefnu fyrir Ísland og er vænst að tillaga hópsins verði lögð fram til umræðu á Alþingi í ársbyrjun 2020. Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hefur í mörg ár bent á hversu mikilvægt þetta verkefni er og að hefjast skuli handa strax enda ástandið á Eyjafjarðarsvæðinu ekki boðlegt, hvorki íbúum né fyrirtækjum. Byggðalínan, sem flytur raforku milli landshluta og landsmanna, er orðin gömul og ótrygg. Elsti hluti hennar, sem liggur frá Skagafirði til Akureyrar, er frá árinu 1974 eða fyrir 44 árum síðan. Endar byggðalínunnar náðu saman árið 1984 og var hún þá orðin tæplega 1.100 kílómetra löng. Byggðalínan tengdi saman landshluta og var mikið framfaraskref í raforkumálum landsins. Hún opnaði líka fyrir möguleikum á að virkja víða um land og nýta orkuna hvar sem er á landinu. Á þeim tíma sem liðinn er frá því byggðalínan var reist hefur raforkumarkaðurinn vaxið jafnt og þétt. Allir eru sammála um að hann eigi eftir vaxa enn meira á komandi árum, m.a. með innleiðingu orkuskipta. Nútímasamfélag án rafmagns er óhugsandi og samfélag framtíðarinnar mun treysta ennþá meira á það.

Auglýst eftir pólitískum kjarki

Flutningsgeta byggðalínunnar er takmörkuð og hefur álag á hana vaxið samfara aukinni raforkunotkun. Er nú svo komið að hún er fullnýtt. Virkjanir landsins geta framleitt meiri orku en veikt flutningskerfi takmarkar framleiðsluna með þeim afleiðingum að orka tapast, hún kemst ekki til raforkunotenda. Samkvæmt nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins um innviði á Íslandi þarf að leggja að lágmarki 55 milljarða króna í uppbyggingu kerfisins svo það geti sinnt hlutverki sínu á viðeigandi hátt. „Flutningskerfið stendur uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum og þarf stórátak til að koma því í almennilegt horf,“ sagði Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri samtakanna í blaðaviðtali í tilefni af útgáfu skýrslunnar. Í mörg ár hefur legið ljóst fyrir að fara þurfi í átak til styrkingu raforkuflutningakerfisins, sambærilegt og átti sér stað við gerð byggðalínunnar fyrir rúmlega 40 árum síðan. Um það eru allir sammála en lítið sem ekkert hefur þokast í þeim málum vegna þess að menn eru ekki sammála um hvernig það skuli gert. Pólitískan vilja og kjark skortir. Á meðan versnar ástandið ár frá ári og dýrmætur tími fer til spillis því framkvæmdatíminn er langur.

Fjárhagslegt tjón mikið

Tjónum vegna rekstrarerfiðleika í raforkuflutningakerfinu hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum. Orkuskortur er að verða reglulegur viðburður víða um land og þá sérstaklega á Akureyri og í Eyjafirðinum öllum. Útsláttur er algengur og þurfa íbúar og fyrirtæki að sætta sig við skerta raforku og sveiflur í raforkuflutningi. Tjón vegna þessa hleypur á hundruðum milljóna króna og fer vaxandi. Rafmagnstæki skemmast og fyrirtæki verða fyrir beinu tjóni vegna stöðvunar framleiðslu og tjóns á búnaði. Í mörgum tilfellum þurfa þau að draga úr starfsemi eða koma sér upp varaafli með díselvélum eða olíukötlum.  

Samfélagslegt tjón gríðarlegt

Ótrygg raforka á Eyjafjarðarsvæðinu stendur atvinnuþróun og uppbyggingu nýrra fyrirtækja fyrir þrifum. Flutningsgeta byggðalínunnar á Norðurlandi er 100 megawött sem er það sama og núverandi álag í Eyjafirði. Það er því ekkert svigrúm fyrir aukna rafmagnsnotkun og óöryggið verður meira og meira sem árin líða. Orkuskorturinn hefur margvísleg neikvæð samfélagsleg áhrif. Hann hefur áhrif á alla framþróun og virkar letjandi á fólk og fyrirtæki sem hafa áhuga á að flytja til svæðisins. Í þessu ástandi er t.d. alvöru rafbílavæðing ómöguleg og útilokað er að raftengja skip í höfninni á Akureyri. Engir möguleikar eru til að ráðast í ný verkefni, stór eða smá, þar sem orkan er ekki til staðar. Afleiðingarnar verða færri atvinnutækifæri sem leiða mun til fólksflótta frá svæðinu. Samfélagslegt tjón verður gríðarlegt. Hver ætlar að bera ábyrgð á því?

Höfundur er framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga