Pistlar | 10. júní 2018 - kl. 11:09
Sannir sigurvegarar
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Segja má að ævi mannsins sé eins og knattspyrnuleikur sem við erum þátttakendur í. Stundum er spenna og hraði, mikið fjör og ferlega gaman og það gengur vel. Svo koma leikir eða kaflar í leiknum sem okkur kann að þykja leiðinlegir, þegar ekkert gengur upp og okkur langar jafnvel mest til að fara út af, gefast upp, hætta. Okkur langar bara heim, nennum ekki að taka þátt í svona ójöfnum, ósanngjörnum og asnalegum leik þar sem allt virðist vera okkur mótdrægt.

Leikurinn snýst um að koma boltanum í mark. Verjast og sækja. Standa sig. Við vinnum sæta sigra og upplifum sár táp. Er aðal atriðið þó ekki eftir allt saman að hafa fengið að veðrast og taka þátt í þeim krefjandi áskorunum sem okkur eru færðar í fang í þeim leik sem lífið er?

Andlegi þátturinn
Sannir sigurvegarar njóta augnabliksins. Þeir standa saman og fagna hverju stigi og öllu því sem vel er gert. Þeir leggja sig fram og eru hluti af liðsheild þar sem hver og einn leggur sitt af mörkum til þess að liðið smelli saman og nái árangri. Þeir hughreysta hver annan, eru uppörvandi og láta mistök ekki sitja í sér heldur eflast með samstöðu við mótlætið.

Í heildarmyndinni eru það nefnilega smáatriðin sem skipta máli svo árangur náist. Sannir sigurvegarar leggja sig fram og skammast sín hvorki fyrir eigið framlag eða frammistöðu né annarra liðsmanna. Þeir taka ekki upp á því að kenna dómaranum eða mótherjunum um það sem miður fer og hvað þá umgjörðinni eða meðleikurunum. Þeir hafa trú á verkefninu og þjálfa sig upp andlega með íhugun og bæn. Í þolinmæði og aga sem veitir æðruleysi, yfirvegun, yfirsýn og þann frið sem til þarf og gerir okkur kleift að takast á við erfið og krefjandi verkefni, ná árangri og höndla aðstæður.

Liðsheild sem byggir á andlegri samstöðu, á sameiginlegri hugsjón, krafti og útsjónarsemi er tendruð af ástríðu, sönnum og heiðarlegum keppnis anda og verður ekki stöðvuð svo glatt. Sama á hverju gengur og hvernig sem allt fer.

Litróf
Litróf mannlegrar tilveru fær sín nefnilega ekki notið nema að allir litirnir komi fram og fái að njóta sín, með sínum hætti. Þá fyrst verður liðið öflugt þegar við tökum að styðja hvert annað. Þegar daufu litirnir fá að styðja þá sterku og hinir sterku þá daufu. Væri tilveran annars ekki daufleg ef við værum öll eins með sömu hæfileika og kepptumst öll við að spila sömu stöðu?

Spilað til sigurs
Ævinnar gleði er eitthvað svo skelfing skammvinn og velgengnin völt. Sigrarnir sætir en kransarnir svo ótrúlega fljótir að fölna. Hin varanlega gleði er fólgin í því að eiga nafn sitt skráð með himnesku letri í lífsins bók. Gleðjumst þeirri gleði. Hún er sigursveigur sem ekki fölnar.

Gleymum ekki að það dýrmætasta er að vera valinn í lið lífsins og fá að spila með til sigurs?

Og munum að þótt einstaka viðureignir kunni að tapast, munum við að lokum standa uppi sem sigurvegarar.

Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga